Ís­lenska ríkið gerðist brot­legt gegn Styrmi Þór Braga­syni, fyrr­verandi for­stjóra MP banka, þegar hann var sak­felldur í Hæsta­rétti án þess að hafa hlotið rétt­láta máls­með­ferð í svo­kölluðu Exeter-máli.

Mann­réttinda­dóm­stóll Evrópu (MDE) birti niður­stöðu sína þess efnis klukkan 8 í morgun. Styrmir var á­kærður fyrir hlut­deild í um­boðs­svikum í tengslum við lán­veitingar spari­sjóðsins Byrs til Tækni­setursins Arkea, sem síðar varð að fé­laginu Exeter Holding.

Styrmir var sakaður um að hafa á­kveðið gengi hluta­bréfa sem Tækni­setrið Arkea keypti, annars vegar með tæp­lega 44 milljóna króna fjár­mögnun MP banka, og hins vegar 800 milljóna króna yfir­dráttar­láni Byrs.

Styrmir hafði verið sýknaður í málinu fyrir Héraðs­dómi Reykja­víkur. Var niður­stöðunni á­frýjað og málið tekið fyrir í Hæsta­rétti. Þeir Jón Þor­steinn Jóns­son, fyrr­verandi stjórnar­for­maður Byrs, og Ragnar Z. Guð­jóns­son, fyrr­verandi spari­sjóðs­stjóri, voru dæmdir í fjögurra og hálfs árs fangelsi fyrir þátt sinn í málinu, en Hæsti­réttur vísaði máli Styrmis aftur í hérað.

Þar var hann sýknaður á ný og var dómnum aftur vísað til Hæsta­réttar. Þar var Styrmir dæmdur í eins árs fangelsi fyrir hlut­deild sína í um­boðs­svikum spari­sjóðsins. Kæra Styrmis til MDE byggði á því að vitni í málinu hafi ekki verið leidd fyrir Hæsta­rétt þegar málið var tekið fyrir þar. Sagði hann að rétturinn hafi endur­metið sönnunar­gildi munn­legs fram­burðar án þess að vitnin hafi komið og gefið skýrslu.

Niðurstaða dómara MDE er einróma. Stjórnvöld eru sögð hafa brotið gegn Styrmi með því að líta framhjá lögum Mannréttindasáttmála Evrópu um rétt manna til réttlátrar málsmeðferðar. Honum eru að auki dæmdar 7.500 evrur í máls­kostnað, jafn­virði rúm­lega einnar milljónar króna.

Dómur Mannréttindadómstólsins í heild.