Stjórn Símans mun mögu­lega endur­skoða stefnu sína um að styrkja stjórn­mála­flokka en fyrir­tækið hefur greitt hæstu fjár­hæð allra fyrir­tækja í formi styrkja til stjórn­mála­flokka síðustu þrjú árin. Greint var frá málinu í kvöld­fréttum RÚV í dag en þar kom fram að á árunum 2016 til 2018 hafi fyrir­tæki styrkt stjórn­mála­flokka í landinu um 170 milljónir.

Síminn styrkti stjórn­mála­flokkana um 6,4 milljónir eða fjögur hundruð þúsund á ári til allra stærstu flokkanna. Þá kemur fram að há­marks­styrkur frá hverju fyrir­tæki hafi verið fjögur hundruð þúsund krónur á ári á því tíma­bili en upp­hæðin var hækkuð upp í 550 þúsund í fyrra. Þar að auki hækkuðu há­marks­styrkir ein­stak­linga um eitt hundrað þúsund, frá tvö hundruð þúsund í þrjú hundruð þúsund.

Veittu styrki til allra stjórn­mála­flokka sem óskuðu eftir þeim

„Upp­runa­lega var það hugsað þannig að það væri hrein­lega til að styrkja lýð­ræðið. Það kostar að halda úti stjórn­mála­starfi,“ sagði Guð­mundur Jóhanns­son, sam­skipta­stjóri Símans, í kvöld­fréttum RÚV og tók fram að allir þeir sem óskuðu eftir styrkjum myndu fá þá.

„Þá ef­laust er Síminn stórt fyrir­tæki sem hefur lengi verið í rekstri, og eitt af þeim fyrir­tækjum sem margir leita alltaf til. En svo er það spurning núna, hvort það sé tæki­færi til að endur­skoða þessa á­kvörðun. Það er stjórnar­kjör hjá Símanum í næstu viku og þá er kannski til­efni til að endur­skoða þessa á­kvörðun,“ sagði Guð­mundur að lokum.

Auk Símans eru HB Grandi, Brim, Síldar­vinnslan, Mann­vit, Kvika Banki og Borgun á lista yfir þau fyrir­tæki sem greiddu hæstu styrkina til stjórn­mála­flokka en af þeim tíu sem eru á listanum eru sex þeirra út­gerðar­fé­lög.