Fjarskipta- fjölmiðlunarfyrirtækið Sýn undirbýr frekari sölu á fjarskiptainnviðum á þessu ári að sögn Heiðars Guðjónssonar, forstjóra Sýnar. Hann segir Ríkisútvarpið hafið yfir lög og reglur og furðar sig á því að stjórnvöld hafi ekki átt frumkvæði að því að jafna stöðu íslenskra fjölmiðla og samfélagsmiðla. Styrkjakerfi fyrir fjölmiðla lini einungis þjáningar en bjargi engu.

„Við getum selt eignir fyrir marga milljarða á þessu ári,“ segir Heiðar í samtali við Markaðinn.

Sýn hefur náð samkomulagi við erlenda fjárfesta um sölu og endurleigu á óvirkum farsímainnviðum félagsins. Væntur söluhagnaður nemur yfir 6 milljörðum króna.

„Verð á innviðum hefur hækkað mikið á alþjóðavísu. Á meðan félag eins og Sýn er metið á fimm sinnum EBITDA [rekstrarhagnaður fyrir skatta, fjármagnsliði og afskriftir] eru innviðir metnir á bilinu 20 til 30 sinnum EBITDA. Og hvers vegna er það? Stofnanafjárfestar á borð við lífeyrissjóði og tryggingafélög sækja í öruggt sjóðsflæði til langs tíma – eignir sem haga sér í raun eins og skuldabréf – sem er nánast hvergi fáanlegt,“ segir Heiðar.

„Það er okkur mjög hagfellt að geta nýtt þessa miklu eftirspurn til að selja innviði á góðu verði til fjárfesta sem eru traustir og sérhæfðir í innviðafjárfestingum.

Getum við gert þetta við aðra innviði? Já, svo sannarlega,“ bætir Heiðar við. „Við eigum fleiri innviði, svo sem IPTV-kerfið í kringum myndlyklana og landsdekkandi burðarnet, sem við viljum gjarnan selja og það eru kaupendur sem vilja kaupa.“

Í tilkynningu Sýnar til Kauphallarinnar kom fram að sala og endurleiga á óvirkum innviðum hefðu óveruleg áhrif á EBITDA fyrirtækisins.

„Þetta breytir engu um rekstrarniðurstöðuna,“ segir Heiðar. „Við eigum ekki lengur þessi möstur, hættum að þjónusta þau og hættum að fjárfesta í viðhaldi. Kaupandinn tekur á sig krónuáhættu, vaxtaáhættu og mótaðilaáhættu ef eitthvað kemur upp hjá okkur eða NOVA. Við losnum við áhættu, fáum gott verð fyrir og einföldum þannig reksturinn. Það sem við erum að vinna í er að breyta kostnaði fyrirtækisins úr föstum í breytilegan þannig að hann fari upp og niður með tekjunum.“

Stefnumótunin að skila sér

Óhætt er að segja að rekstur Sýnar sé margþættari en rekstur flestra fyrirtækja. Kaup á eignum 365 miðla árið 2017 sameinuðu fjarskiptarekstur og fjölmiðlun, og viðskiptalíkanið var útvíkkað enn frekar með kaupum á upplýsingatæknifyrirtækinu Endor árið 2019.

„Við erum með viðskiptasamband við yfir 70 þúsund heimili, um helming af 300 stærstu fyrirtækjum landsins og mjög stóran hluta af smærri fyrirtækjum. Það er ekki fráleitt að útvíkka viðskiptasambandið með því að selja til dæmis raforku, tryggingar eða öryggisþjónustu. Við þekkjum viðskiptavini okkar vel og getum nýtt stærðarhagkvæmnina til þess að lækka kostnað heimila og fyrirtækja á ýmsum sviðum,“ segir Heiðar.

Yfirtakan á eignum 365 miðla gekk þó ekki áfallalaust fyrir sig. Samþætting tók lengri tíma en búist var við og kostnaður var umfram spár. Á árinu 2019 nam tap Sýnar ríflega 1,8 milljörðum króna.

„Það má segja að samþættingin hafi ekki gengið sem skyldi en viðskiptahugmyndin á bak við sameiningu fjarskipta og fjölmiðla er enn góð og gild,“ segir Heiðar.

„Fjölmiðlafrumvarpið linar þjáningar en bjargar engu. Það er plástur á sár sem stækkar og stækkar.“

Ráðist var í stefnumótun á árinu 2019 til þess að koma fyrirtækinu á réttan kjöl en hún fól í sér miklar umbætur á þjónustuleiðum og vöruframboði Sýnar. Afraksturinn kemur sífellt betur í ljós.

„Ánægjuskor okkar í könnunum hefur nú aldrei mælst jafnhátt en sumarið 2019 hafði það aldrei verið jafnlágt. Og ánægja starfsmanna hefur aldrei mælst hærri í sögu fyrirtækisins. Það er eitthvað að gerast sem fólk hefur trú á.“

Sýn tapaði 400 milljónum króna á árinu 2020 en ef ekki hefði verið fyrir kórónaveirufaraldurinn, sem hafði verulega neikvæð áhrif á auglýsingatekjur og farsímatekjur, hefði fyrirtækið skilað hagnaði. Þá var tap fjórða ársfjórðungs einungis 3 milljónir króna samanborið við ríflega 2 milljarða króna tap á sama fjórðungi 2019.

Þá hefur lækkun áskriftarverðs skilað sér í mikilli fjölgun áskrifenda. Verð á Stöð 2 Sport hefur helmingast á síðustu þremur árum.

„Það hafa ekki verið fleiri áskrifendur að Stöð 2 um margra ára skeið. Í mars fórum við af stað með fjölskyldupakka þar sem Stöð 2 og Stöð 2 plús er selt saman ásamt fjarskiptaþjónustu. Kaupin á fjölmiðlunum voru einmitt til þess gerð að hægt væri að bjóða betra verð til heimila og þá má því segja að búið sé að sameina fyrirtækin endanlega þegar fjölmiðlarnir og fjarskiptin vinna svona saman.“

Læsingin gaf góða raun

Í byrjun árs voru kvöldfréttir Stöðvar 2 teknar úr opinni dagskrá en þar með urðu þær einungis aðgengilegar áskrifendum. Heiðar segir að í kjölfarið hafi áskrifendum að stöðinni fjölgað í þúsundatali.

„Við erum mjög ánægð með þessa ákvörðun. Og auk þess er meiri samfella í dagskrárgerðinni því nú þarf ekki að huga að því að einhverjir sem eru ekki áskrifendur séu að einnig að horfa. Þetta er hrein áskriftarstöð.“

Hafið þið í hyggju að ganga enn lengra? Til dæmis að setja hluta af Vísi á bak við greiðslugátt?

„Það er ein hugmynd. Ef þú skoðar fjölmiðla á Norðurlöndum þá sérðu að þeir eru nánast allir með efni á bak við greiðslugátt. Að því leyti er Ísland í ákveðinni sérstöðu. Stærstu vefmiðlarnir, Vísir og síðan mbl.is, eru með opinn aðgang að nánast öllu sínu efni. En ég get séð fyrir mér eins konar „premium“ áskrift að Vísi sem veitir aðgang að enn meira efni og sníður viðmótið eftir höfði neytandans. Ef þú ert til dæmis mikill íþróttaáhugamaður og heldur með Arsenal þá væru fréttir þess efnis efst á síðunni.“

Heiðar ítrekar þó mikilvægi þess að Vísir, sem er stærsti vefmiðill landsins ef horft er til fjölda notenda, ræki áfram hlutverk sitt sem almannaþjónusta. Sérstaklega í ljósi þess að upplýsinga- og fréttavefir á vegum ríkisins geta reynst brigðulir á ögurstundu. „Í eldgosinu hrundu vefir Ríkisútvarpsins og Veðurs.is vegna álags á meðan Vísir hélt sínu striki.“

Að mati Heiðars á Vísir mikið inni en á síðasta ársfjórðungi jukust auglýsingatekjur vefmiðilsins um 15 prósent á milli ára.

Helsta vaxtartækifærið gæti þó falist í uppbyggingu tengdri hluta­neti (e. Internet of Things), sem gerir tækjum kleift að tala saman og er einn angi af fjarskiptum framtíðarinnar. Sýn hefur til að mynda unnið með Controlant í yfir áratug og bjó til fyrstu sérhæfðu kortin sem fyrirtækið notar í mæla sína. Samningar Controlant við lyfjarisa um að nýta tækni íslenska fyrirtækisins við dreifingu á bóluefni gegn COVID-19 voru mikil lyftistöng fyrir þennan hluta starfseminnar.

„Ég hugsa að við séum með um 95 prósenta markaðshlutdeild á Íslandi þegar kemur að sérhæfðum kortum. Við erum í algjörum sérflokki,“ segir Heiðar.

Við þetta bætist að Sýn mun tengja alla nýja snjallmæla Veitna á um 160.000 stöðum og samstarf við Vodafone Global gerir það að verkum að nánast allir nýir bílar sem koma til landsins frá og með þessu ári munu tengjast við símkerfi Sýnar.

RÚV hafið yfir lög og reglur

Rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi litast af umsvifum Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði og í dagskrárgerð. En þrátt fyrir að áhrif stofnunarinnar á fjölmiðlamarkaðinn hafi legið fyrir lengi hafa stjórnvöld lítið aðhafst.

„Árið 1996, þegar áform voru uppi um að breyta afnotagjaldinu í nefskatt, var skrifuð skýrsla fyrir menntamálaráðuneytið. Þar var fullyrt – og spáð hárrétt fyrir – að starfsemi Ríkisútvarpsins myndi smám saman ganga að einkareknum fjölmiðlum dauðum og lagt til að stofnunin yrði tekin af auglýsingamarkaði. Þetta var fyrir aldarfjórðungi síðan.“

Hefurðu misst trúna á því að stjórnvöld taki á ruðningsáhrifum Ríkisútvarpsins?

„Já, ég hef enga trú á því að það verði einhverjar breytingar í bráð. En það er ekki eins og ég sé á móti Ríkisútvarpinu. Það ætti að sinna menningarþjónustu en ekki keppa við einkamiðla.“

„Ef einkafyrirtæki hefði verið staðið að þessu hefði brotið varðað fangelsisvist.“

Heiðar rifjar upp viðtal sem Morgunblaðið tók fyrr í vetur við hann, Orra Hauksson, forstjóra Símans, og Stefán Eiríksson útvarpsstjóra. Þar var bent á að RÚV hefði oft framleitt efni til höfuðs einkareknum miðlum, svo sem barnaefni, en Stefán sagði að hann teldi ekki að RÚV ætti að vera í beinni samkeppni við einkamiðla um áhorf á tilteknum tímum.

„Síðan hefst nýr tónlistarþáttur á RÚV í síðasta mánuði sem er nákvæmlega á sama tíma og Heima með Helga. Það er sláandi hversu langt RÚV gengur,“ segir Heiðar.

Og honum virðist að RÚV sé hafið yfir lög og reglur.

Árið 2019 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um rekstur Ríkisútvarpsins þar sem fjölmiðillinn var sagður brjóta lög með því að hafa vanrækt að setja samkeppnisrekstur í sérstakt dótturfélag. Lög sem kveða á um að RÚV skuli stofna dótturfélag eru frá árinu 2013 en gildistöku umrædds ákvæðis var frestað til 2018. Sagði í skýrslunni að ákvæðið um dótturfélag væri til að tryggja að ríkisstyrkir rynnu ekki til annarrar starfsemi en almannaþjónustu.

„Skýrslan varpaði ljósi á það hvernig RÚV var að blekkja virðisaukaskattskerfið með því að nota innskattinn af almannaþjónustunni þegar þau máttu einungis nota innskattinn af samkeppnishlutanum. Þetta var bókhaldsbrella. Ef einkafyrirtæki hefði verið staðið að þessu hefði brotið varðað fangelsisvist. Og ef eigandinn gæti ekki endurgreitt ríkinu vangoldin gjöld hefði hann verið gerður persónulega gjaldþrota.“

Þá birti fjölmiðlanefnd skýrslu á síðasta ári þar sem ríkismiðillinn er sagður hafa þverbrotið þjónustusamning sinn við stjórnvöld með því að flokka verktakagreiðslur til starfsmanna sinna sem kaup á dagskrárefni frá sjálfstæðum og óskyldum framleiðendum.

Sinnulaus stjórnvöld

Ásamt umsvifum RÚV er tilfærsla auglýsinga yfir til samfélagsmiðla ein stærsta rekstraráskorun einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Hins vegar fær ríkissjóður engan virðisaukaskatt af auglýsingakaupum á samfélagsmiðlum, jafnvel þó að þær séu keyptar af íslenskum fyrirtækjum og séu ætlaðar neytendum á Íslandi.

„Það er ótrúlegt að stjórnvöld hér á landi hafi ekki kippt þessu í liðinn þegar þau hafa skýra hagsmuni af því að vernda íslenska fjölmiðlun.“

„Áður fyrr sögðu samfélagsmiðlarnir allir í kór að þeir væru einungis opinn vettvangur, að þeir gætu ekki haft stjórn á efninu sem þar birtist. Síðan afhjúpa þeir sig í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum þegar þeir hófu að ritskoða fréttir þeim tengdar. Nú eru Ástralía og Kanada að stíga fram og gera samninga við þessa samfélagsmiðla þannig að þeir greiði höfundarréttargreiðslur, skatta og önnur gjöld.

Það er ótrúlegt að stjórnvöld hér á landi hafi ekki kippt þessu í liðinn þegar þau hafa skýra hagsmuni af því að vernda íslenska fjölmiðlun. Í staðinn er verið að koma á fót styrkjakerfi fyrir fjölmiðla. Það er miklu nær að jafna leikinn frekar en að fást við afleiðingarnar,“ segir Heiðar og vísar þar bæði til umsvifa RÚV og samfélagsmiðla.

Fjölmiðlafraumvarpið er sem sagt gagnslítið?

„Fjölmiðlafrumvarpið linar þjáningar en bjargar engu. Það er plástur á sár sem stækkar og stækkar. Svo vitum við að um leið og ríkið kemur á fót styrkjakerfi byrja fjölmiðlar að laga sig að skilmálum kerfisins. Allt í einu er komin ógn við ritstjórnarlegt sjálfstæði.“

Reglur og höft kosta sitt

Fjarskiptalagafrumvarp er nú í meðförum Alþingis. Í frumvarpinu er kveðið á um að búnaður í tilteknum hlutum innlendra farneta, sem teljast viðkvæmir með tilliti til almannahagsmuna og öryggis ríkisins, skuli í heild sinni eða að ákveðnu hlutfalli búnaðar vera frá framleiðanda í ríki sem Ísland á öryggissamstarf við eða ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Frumvarpinu er meðal annars ætlað að tryggja að 5G-kerfin verði ekki of háð kínverska fyrirtækinu Huawei eða öðrum framleiðendum tæknibúnaðar. Bæði Sýn og Nova nota fjarskiptabúnað frá Huawei.

„Í frumvarpinu felast jákvæðar breytingar sem miða að því að leyfa meiri samrekstur á kerfum í stað þess að hvert fyrirtæki sé í sínu horni. Við þekkjum hvernig þetta hefur verið með Mílu og Gagnaveitu Reykjavíkur sem grafa tvo ljósleiðara í hvert hús. En það er ekki enn búið að afgreiða frumvarpið sem veldur því að við eigum erfitt með að ráðast í fjárfestingar til lengri tíma. Við vitum ekki hvaða takmarkanir á birgja verða settar.

Okkur finnst ótækt að ríkið ætli að skipa einkafyrirtækjum fyrir um við hverja þau eiga viðskipti. Við tökum öryggishlutverk okkar mjög alvarlega og á vegum Vodafone Global starfa þúsundir fjarskiptaverkfræðinga sem sjá um að ganga úr skugga um að kerfin séu örugg. Þá vaknar sú spurning hvort þingmönnum á Íslandi sé betur treystandi en þeim til þess að meta áhættuna. En svona er þetta oft með reglur og höft. Fólk virðist ekki átta sig á því að reglur kosta og í þessu tilfelli kosta þær gríðarlega fjármuni. Sterkir og hagkvæmir innviðir skipta öllu máli fyrir samkeppnishæfni til langs tíma.“

Í lok árs 2019 undirrituðu Sýn, Síminn og Nova viljayfirlýsingu um viðræður um möguleika á samnýtingu og samstarfi við uppbyggingu fjarskiptainnviða.

Er einhver hreyfing í þessum efnum?

„Já, Póst- og fjarskiptastofnun hefur leyft okkur að prófa búnaðinn saman, farsímakjarna frá Ericsson og sendi frá Huawei og öfugt, og Samkeppniseftirlitið hefur ekki gert athugasemdir. Þessar prófanir hafa gefið góð fyrirheit en við þurfum að fá fjarskiptalagafrumvarpið samþykkt svo að við vitum til hvers sé ætlast af okkur.“

Ofurskuldir bitna á ungu kynslóðinni

Úr rekstrinum yfir í efnahagsmál. Ríkissjóður hefur skuldsett sig fyrir hundruð milljarða króna til þess að bregðast við kórónakreppunni. Hefurðu áhyggjur af þessari miklu skuldasöfnun?

„Ég hef aðallega áhyggjur af ungu fólki, það er að segja, að þróunin verði eins og í Japan á tíunda áratug síðustu aldar – og hennar gætir raunar enn í dag – þar sem japanska ríkið skuldsetti sig gífurlega en komandi kynslóðir sátu uppi með reikninginn.

Mikið er rætt um að hækka atvinnuleysisbætur en það er ekki fjárfesting. Það er í lagi að taka lán ef það skilar sér í verðmætasköpun sem stendur undir láninu og vel það. En það er fráleitt að fjármagna samneyslu með láni til langs tíma. Ungt fólk í dag virðist ekki vera sérstaklega spennt fyrir stjórnmálum eða fjármálum en það hefur mikla hagsmuni af því að sitja ekki uppi með þennan risastóra reikning.“

Fréttablaðið/Ernir

Talandi um atvinnuleysi. Það er í sögulegum hæðum á sama tíma og mikill skriðþungi er í launaþróun, sérstaklega hjá hinu opinbera. Gengur dæmið upp?

„Við höfum þurft að segja upp fólki vegna þess að launakostnaður við hvern starfsmann er orðinn svo mikill. Afleiðingin er sú að álagið eykst á þá sem eftir eru,“ segir Heiðar.

„Það er óhjákvæmilegt að launahækkanir um fram það sem atvinnulífið stendur undir skili sér í verðbólgu eins og hagsaga Íslands vitnar um. Ýmsir ytri þættir hafa haldið aftur af verðbólgunni á síðustu tveimur árum, til dæmis lágt olíuverð, framleiðsluslaki í hagkerfinu og hagstæð markaðsverð fyrir fisk og ál. Við höfum verið heppin en hagfræðilögmálin hafa hins vegar ekki breyst.

Það sem veitir manni bjartsýni er hraði tæknibreytinga,“ bætir Heiðar við. „Þær eru áhrifamikill kraftur sem verkar í átt til verðhjöðnunar. Á hverjum degi kemur ný tækni sem gerir fólki kleift að gera meira fyrir minna. Horft fram á veginn munu hraðar tæknibreytingar og minnkandi fólksfjölgun hafa verðhjaðnandi áhrif á alþjóðavísu.“

Hart bitist um enska boltann

Eins og kunnugt er missti Sýn sýningarréttinn á enska boltanum árið 2018 þegar Síminn yfirbauð fyrirtækið í útboði um réttinn. Í kjölfarið hafði Markaðurinn eftir heimildum að tilboð Sýnar hefði numið nærri átta milljónum evra, jafnvirði um 1,2 milljarða króna á núverandi gengi. Útboðsferlið var með þeim hætti að ef munur á tilboðum væri innan tíu prósenta færi útboðið í aðra umferð. Ekki kom til þess og því ljóst að tilboð Símans var minnst tíu prósentum hærra.

„Það verður hart bitist um sýningarréttinn þegar hann verður boðinn út í sumar. En við getum ekki tapað á því enda eigum við ekki réttinn sem stendur. Við getum einungis hagnast ef vel tekst til.“

Ætla að má að norræna streymisveitan Viaplay taki þátt í útboðinu en fyrirtækið á nú þegar sýningarréttinn á enska boltanum á öllum hinum Norðurlöndunum. Via Play hefur fært út kvíarnar hér á landi með kaupum á sýningarréttum erlendra íþróttaviðburða, svo sem Meistaradeild Evrópu en rétturinn skiptist til helminga milli Via Play og Sýnar.

„Við höfum vitað um nokkurt skeið að áhersla okkar þyrfti að vera á innlenda efnisframleiðslu,“ segir Heiðar en Sýn hefur tryggt sér sýningarréttinn á efstu deildum karla og kvenna í knattspyrnu næstu fimm árin.

Daglegur rekstur er stanslaus barátta

Heiðar starfaði sem fjárfestir um langt skeið áður en hann tók við sem forstjóri Sýnar árið 2019. Þetta eru tvö ólík hlutverk.

Voru mikil viðbrigði að taka við forstjórastarfinu eftir að hafa verið fjárfestir í svo langan tíma?

„Auðvitað er daglegur rekstur hjá einkafyrirtæki stanslaus barátta. Þá skiptir miklu máli að hafa gaman af verkefnunum og vinna með góðu fólki.“

Hefurðu þurft að vinna í einhverju eiginleikum til þess að fínstilla stjórnunarstílinn?

„Ætli ég hafi ekki þurft að hlusta meira en ég er vanur að gera,“ segir Heiðar á léttum nótum.