Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir litlar líkur á því að stýrivextir Seðlabankans verði undir fimm prósentum í árslok en þetta er meðal niðurstaðna í nýrri þjóðhagsspá Íslandsbanka.

Jón Bjarki er gestur í þætti Björns Jóns Bragasonar, Sögu & samfélagi, á Hringbraut í kvöld miðvikudag kl. 19.30.

Tekjum eytt jafnharðan

Í skýrslu fjármálaráðs sem kom út í síðasta mánuði er meðal annars gagnrýnt að öllum tekjum ríkissjóðs sé eytt jafnharðan. Tekjurnar séu sveiflukenndar og útgjöld sveiflukennd að sama skapi. Því geti reynst erfitt að hemja útgjöldin þegar gefur á bátinn og af þessu hafi hlotist þrálát skuldasöfnun. Jón Bjarki tekur undir það aðspurður að horfa þurfi til fleiri þátta við stjórn efnahagsmála en stjórntækja Seðlabankans og þar vegi ríkisfjármálin einna þyngst:

„Það er ósamræmi í því þegar allir voru á leggjast á eitt með að létta almenningi og fyrirtækjunum lífið í gegnum kórónukreppuna, þá skildu allir þetta samráð og höfðu fullan skilning á því að það ættu allir að koma að borðinu, ríkisfjármálin með tímabundnum stórauknum halla og Seðlabankinn með því að lækka vexti og slaka á peningalegum skilyrðum, lausafjárskilyrðum og fleiru slíku.“

„En þegar þarf aftur að herða ólina þá einhvern veginn gleymist að þetta sé sameiginlegt verkefni.“

Pólitíkin skiptir máli

Þá segir hann að þegar flokkar með jafn ólíka stefnu sitji saman í ríkisstjórn þá viti það ekki endilega á gott fyrir jafnvægi í ríkisfjármálum, illa gangi að ætla sér samhliða að halda aftur af sköttum og auka ríkisútgjöld. Ríkisstjórnin hafi þó sett sér verðug markmið í þessu efni en gjarnan megi gera betur.