Seðlabanki Bandaríkjanna sagðist í kvöld ætla að lækka stýrivexti um eitt prósentustig og grípa til enn frekari aðgerða til þess að bregðast við efnahagslegum áhrifum kórónaveirunnar sem hefur á síðustu vikum breiðst hratt út um gervallan heim.

Bankinn tilkynnti í kvöld að vextir yrðu lækkaðir í 0 til 0,25 prósentustig en þeir hafa ekki verið svo lágir frá árinu 2015, eftir því sem fram kemur í frétt Financial Times. Bankinn lækkaði sem kunnugt er vextina um hálft prósentustig á sérstökum neyðarfundi fyrr í mánuðinum.

Í tilkynningu bankans sagðist hann reiðubúinn til þess að nota öll sín tól til þess að tryggja greiðsluflæði til heimila og fyrirtækja og stuðla þannig að atvinnu og verðstöðugleika í samræmi við markmið sín. Ljóst væri að kórónafaraldurinn hefði afar skaðleg áhrif á efnahagsstarfsemi í Bandaríkjunum rétt eins og í öðrum ríkjum.

Seðlabankinn sagðist auk þess ætla að festa kaup á bandarískum ríkisskuldabréfum fyrir að minnsta kosti 500 milljarða dala og verðbréfum tryggðum með fasteignaveðum fyrir 200 milljarða dala á næstu mánuðum í því augnamiði að styðja við fjármálamarkaði landsins.

Til viðbótar hyggst seðlabankinn rýmka reglur sínar um skammtímalán til banka - í gegnum svonefndan „afsláttarglugga“ (e. discount window) - en umrædd lán eru einkum ætluð bönkum sem þurfa nauðsynlega á fjármögnun til skamms tíma að halda.

Jafnframt segist bankinn ætla að lækka bindiskyldu bandarískra banka í núll prósent og tekur sú breyting gildi þann 26. mars næstkomandi. Seðlabankinn hefur þegar heitið því að stórauka lausafé inn í bandarískt fjármálakerfi.

Aðgerðir Seðlabanka Bandaríkjanna koma í kjölfar mikilla verðlækkana á alþjóðlegum fjármálamörkuðum vegna áhyggna fjárfesta af áhrifum stóraukinnar útbreiðslu kórónaveirunnar á heimshagkerfið. Sem dæmi lækkuðu bandarískar hlutabréfavísitölur um meira en níu prósent á fimmtudag og var það mesta dagslækkun á þarlendum hlutabréfamarkaði frá mánudeginum svarta í október árið 1987.