Árlegur hluthafafundur Alphabet, móðurfyrirtækis Google var haldinn í San Fransisco í gær. Fjórtán sjáfstæðir hluthafar í Alphabet gagnrýndu hve mikil völd hefðu safnast á fárra hendur og lögðu meðal annars til að skilja að auglýsingasöluhluta fyrirtækisins frá leitarvélinni.

Sundar Pichaim, forstjóri Google gaf ekkert út á fyrirspurnirnar samkvæmt fréttavefnum Wired.

Larry Page og Sergey Brin sem samanlagt eiga um 54% í fyrirtækinu voru ekki viðstaddir fundinn sem vakti óánægju hluthafa.

Um 100 manns mótmæltu jafnframt fyrir utan höfuðstöðvar Alphabet í Kaliforníu og voru starfsmenn fyrirtækisins í hópi mótmælenda.

Starfsmenn Alphabet hafa lýst yfir óánægju með jafnréttismál innan fyrirtækisins, auknar verktakaráðningar, verkefnið „Drekafluguna“ sem á að vera ristkoðuð leitarvél fyrir Kína og þöggun varðandi kynferðisáreitni innan fyrirtækisins. Greint hefur verið frá því að áform um „Drekafluguna„ hafi verið blásin af í fyrra í kjölfar háværra mótmæla innan sem og utan fyrirtækisins en orðrómur er um að verkefnið sé enn í vinnslu.

Aðgerðarsinnaðir hluthafar lýstu yfir áhyggjum sínum af því að sú tækni sem Alphabet þróar verði ekki notuð á siðferðislegan hátt og krefjast meira gagnsæis varðandi þá vinnu.

Einnig var gerð athugasemd við að enn ríkti ákveðin þöggun varðandi reglugerð um hvernig taka skyldi á málum er varða kynferðisáreitni á vinnustöðum í eigu Alphabet. Andy Rubin, fyrrverandi yfirmanni hjá Google voru í fyrra greiddar 90 milljónir dollara til að láta af störfum eftir að stoðum var rennt undir ásakanir á hendur honum um kynferðislega áreitni í fyrra.