Ávíturnar sem Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE) fékk frá fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands vegna ákvörðunartöku stjórnar sjóðsins um hvort hann tæki þátt í hlutafjárútboði Icelandair snerist að miklu leyti um aðkomu Helgu Ingólfsdóttur, stjórnarmanns í bæði VR og LIVE, að þeirri ákvörðun í ljósi þess að hún hefði áður stutt tilmæli stjórnar VR um sniðgöngu á útboðinu.

Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands komst að þeirri niðurstöðu að stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna hefði ekki gætt að því að meta hæfi einstakra stjórnarmanna við undirbúning og ákvörðun um hvort sjóðurinn tæki þátt í hlutafjárútboði Icelandair. Einnig var upplýsingagjöf sjóðsins vegna athugunar eftirlitsins ábótavant og misvísandi.

Tillaga um að lífeyrissjóðurinn myndi skrá sig fyrir 2,5 milljarða króna hlut í útboðinu féll á jöfnum atkvæðum þar sem fjórir stjórnarmenn greiddu atkvæði með og fjórir greiddu atkvæði gegn. Fulltrúar atvinnurekenda í stjórn LIVE studdu tillöguna en fulltrúar stéttarfélagsins VR greiddu atkvæði gegn henni.

Í aðdraganda útboðsins sendi stjórn VR frá sér yfirlýsingu þar sem tilmælum var beint til þeirra stjórnarmanna sem VR skipar í stjórn lífeyrissjóðsins að sniðganga eða greiða atkvæði gegn þátttöku í væntanlegu hlutafjárútboði Icelandair. Var það gert vegna óánægju stjórnar VR með það hvernig Icelandair hefði staðið að kjaraviðræðum við Flugfreyjufélag Íslands. Yfirlýsingin var síðan dregin til baka.

Skömmu síðar greindi Fréttablaðið frá því að Helga Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði og stjórnarmaður í bæði Lífeyrissjóði verzlunarmanna og VR, hefði stutt ákvörðun stjórnar VR um að senda út tilmælin. Hún studdi einnig tillögu formanns VR um að draga tilmælin til baka.

„Ég studdi ákvörðun stjórnar VR að mótmæla harðlega þeirri ákvörðun sem tekin var af Icelandair síðastliðinn föstudag um að segja upp kjarasamningi við Flugfreyjufélag Íslands sem var megintilgangur með þeirri yfirlýsingu sem send var frá stjórn VR,“ sagði Helga í samtali við Fréttablaðið.

Bjarni Þór Sigurðsson situr einnig í báðum stjórnum en hann sagðist ekki hafa stutt það að senda út tilmælin. „Það eru ákveðnar reglur sem gilda um stjórnir í lífeyrissjóðum og menn eiga að vera sjálfstæðir í störfum. Ég hef það að sjálfsögðu í heiðri,“ sagði Bjarni Þór.

Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst tók fjármálaeftirlit Seðlabankans ekki afstöðu til þess hvort Helga hefði verið vanhæf til að greiða atkvæði um tillöguna. Niðurstaða eftirlitsins var einungis sú að stjórn sjóðsins hefði ekki gætt að því að meta hæfi einstakra stjórnarmanna.

Hefur Seðlabankinn farið fram á að stjórn lífeyrissjóðsins muni framvegis tryggja að fullnægjandi umræða fari fram á stjórnarfundum um hæfi stjórnarmanna þegar tilefni er til þess.