Í Markaðnum á Hringbraut í gærkvöldi sagði Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, frá því að þrátt fyrir að settar hefðu verið nokkuð brattar forsendur fyrir fjölgun farþega við gerð þróunaráætlunar fyrir Keflavíkurflugvöll 2015 til næstu 30–40 ára hefði farþegavöxturinn verið umfram þær árin fram að faraldri.

Eftir að takmörkunum vegna Covid var aflétt fyrr á þessu ári hefur farþegum fjölgað mun meira en búist var við. Spáð hafði verið að 4,7 milljónir farþega færu um Keflavíkurflugvöll á þessu ári en nú lítur út fyrir að talan verði 6 milljónir.

„Þetta setur álag á allt hjá okkur,“ segir Sveinbjörn, „bæði reksturinn og framkvæmdirnar og flugturninn sem stýrir umferð. Við erum alltaf að bregðast við óvæntum hlutum. Við erum alltaf með flugvöllinn á einhvers konar byggingarstigi og eins og staðan er nú lítur út fyrir að við komumst yfir einhvern kúf svona 2028–29.“

Hann segir stærstu einstöku framkvæmdina sem fram undan sé vera að skipta út því sem stundum er kallað tannstöngullinn. „Þetta er rauði landgangurinn milli norður- og suðurbygginganna. Honum þurfum við að skipta út og setja svona miðju inn í flugstöðina. Þetta er risaframkvæmd upp á 40–43 milljarða. Þarna verður nýtt hjarta flugstöðvarinnar. Við þurfum að byrja að gera þetta áður en við förum að byggja vængi út úr flugstöðinni sem landgöngubrýrnar raðast svo utan á.“

Að sögn Sveinbjörns verður þröngt í flugstöðinni meðan á þessum framkvæmdum stendur, næstu sex árin eða svo. Á meðan verður talsvert um að flugumferðin fari um fjarstæði, sem þýðir að vélarnar leggja ekki upp að landgöngubrúm við flugstöðina heldur eru farþegar fluttir milli vélar og flugstöðvar með rútum.

Jafnvel þegar flugstöðin hefur náð fullri stærð miða áætlanir við að um 30 prósent af flugumferð á sumrin fari um fjarstæði.

Það sem gerist svo, og þetta er líka jákvætt, er að flugumferðin teygist á jaðrana – byrjar fyrr á vorin og nær lengra inn á haustið – sem er frábært fyrir okkur, betri nýting fyrir innviðina og frábært fyrir bæði ferðaþjónustuna og Ísland út af flugtengingunum. Svo gerist það líka að veturinn fer að byggjast upp og við erum komin á þann stað að við erum heilsársáfangastaður.

Á næstu árum verður innleidd ný tækni við öryggisleit í Leifsstöð sem felur í sér að farþegar munu í mun minna mæli en nú verða fyrir óþægindum við öryggisskoðun, auk þess sem hlutirnir munu ganga enn hraðar fyrir sig en nú.

Fram undan eru útboð á verslunar- og veitingarýmum enda er flugstöðin að stækka. „Við bjóðum þetta allt út og viljum að það sé samkeppni um þetta. Þetta eru takmörkuð gæði og við viljum að aðilar sem eru að keppast um það komi þarna að. Fyrir okkur snýst þetta bæði um fjölbreytileikann og að fá spennandi tækifæri inn á flugvöllinn. Svo eru þetta líka tekjur fyrir okkur. Tekjurnar sem við fáum frá þessum rekstri eru ekki síður mikilvægar en þær tekjur sem við erum að fá frá farþegum og flugfélögum.“

Sveinbjörn segir stefnt að því að óflugtengdar tekjur verið ríflega helmingur allra tekna Isavia, þær séu mikilvægur þáttur í því að niðurgreiða flugtengdan kostnað svo hægt sé að bjóða flugfélögum lægri notendagjöld. „Við erum að keppa á fullu við aðra flugvelli og aðra áfangastaði um það að flugfélögin vilji fljúga til okkar.“