Strengur, fjárfestingafélag sem Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður fyrir, hefur bætt við hlut sinn í Skeljungi og á nú 44 prósenta hlut. Að teknu tilliti til eigin bréfa fer Strengur með 45 prósenta atkvæðisréttar. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Fjárfestingafélagið gerði yfirtökutilboð í Skeljung sem gekk ekki eftir. Þegar tilboðið rann út á þriðjudag átti Strengur 40,6 prósenta hlut í félaginu. Yfirtökutilboðið hljóðaði upp á 8,3 krónur á hlut en gengið er nú 9,8 krónur á hlut.

Fjárfestingafélagið Strengur er í eigu Sigurðar Bollasonar og eiginkonu hans, Nönnu Bjarkar Arngrímsdóttur; Ingibjargar Pálmadóttur og fasteignasalanna Þórarins A. Sævarssonar og Gunnars Sverris Harðarsonar. Hluthafar Strengs voru áður hluthafar í Skeljungi. Þeir gerðu með sér samkomulag um að leggja hluti sína í Streng. Eins og fyrr segir er Jón Ásgeir, eiginmaður Ingibjargar, stjórnarformaður Strengs.