Straumlind, sem hóf að selja rafmagn á smásölumarkaði til heimila og fyrirtækja í byrjun marsmánaðar, hefur sent erindi til Samkeppniseftirlitsins vegna meintrar, samkeppnishamlandi háttsemi Íslenskrar orkumiðlunar á smásölumarkaði með rafmagn á síðastliðnum vikum.

Heldur Straumlind því fram að innkomu Straumlindar á raforkusölumarkaði hafi verið mætt með mjög ágengum hætti af hálfu Íslenskrar orkumiðlunar, að því er kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

„Straumlind kom inn á markaðinn og bauð 6,98 kr. pr. kWst. Rafmagn hjá Straumlind var þá 14% ódýrara en hjá ON (8,10 kr. pr. kWst.) og HS orku (8,11 kr. pr. kWst.) og 2,4% ódýrara en hjá Íslenskri Orkumiðlun (ÍOM), sem er hluti af N1, sem boðið hafði lægsta verðið fram að þeim tíma (7,15 kr. pr. kWst),“ segir í tilkynningunni.

Þar segir jafnframt: „Strax þann 1. mars lækkaði ÍOM verðið hjá sér í 6,90 kr. pr. kWst. Straumlind svaraði og lækkaði í 6,88 kr. pr. kWst. Næsta dag lækkaði ÍOM aftur og nú í 6,80 kr. pr. kWst. Straumlind svaraði innan dagsins og lækkaði í 6,78 kr. pr. kWst. ÍOM lækkaði þá enn á ný og nú í 6,70 kr. pr. kWst. Straumlind hafði því veruleg áhrif til lækkunar á verði á fyrstu dögum í starfsemi félagsins. Af framangreindu er ljóst að nýju sölufyrirtæki á raforkusölumarkaði var mætt með mjög ágengum lækkunum á verði af hálfu ÍOM.“

Í tilkynninguni er jafnframt greint frá því að heildsöluverð rafmagns hafi lækkað á markaði í desember 2020 en ekkert raforkusölufyrirtæki lækkaði verðið hjá sér, þar með talin Íslensk Orkumiðlun.

Það hafi ekki verið fyrr en Straumlind hafi komið inn á markaðinn og boðið 2,4 prósent lægra verð en lægsti aðili á markaði sem ballið hafi byrjað. „Í þrígang hefur Íslensk Orkumiðlun lækkað sig niður fyrir Straumlind,“ segir í umfjöllun um málið í fréttatilkynningu.

Á fjórða degi starfsemi sinnar á raforkumarkaði, eða þann 4.mars síðastliðinn, beindi Straumlind svo erindi til Samkeppniseftirlitsin. Er það óskað því að „kannað yrði hvort háttsemi Íslenskrar Orkumiðlunar sé til þess fallin að hindra virka samkeppni í viðskiptum, takmarka aðgang nýs samkeppnisaðila að markaðnum eða hindra heilbrigt samkeppnisumhverfi til hagsbóta fyrir neytendur.“

Straumlind hefur nú ákveðið að lækka verð enn og aftur, í þetta skiptið í 6,68 krónur fyrir kílóvattstundina.