Í lok árs er alltaf gaman að skoða spár helstu sérfræðinganna um það hverjir verði helstu straumar og stefnur næsta árs í stafrænni markaðssetningu. Hér fjalla ég um nokkra þeirra sem mér finnst áhugaverðir fyrir árið 2020 en athugið að þetta er einungis brot af þeim straumum sem eru í gangi.


Gervigreind


Segja má að gervigreind dragi vagninn í hinni svokölluðu fjórðu iðnbyltingu sem tröllríður nú öllu og snýst um þær gífurlega öru tæknibreytingar sem orðið hafa á síðustu áratugum. Hér eru nokkrir spennandi straumar sem munu vaxa árið 2020 og byggja meira og minna á gervigreind:

Raddleit
Samkvæmt ComeScore munu 50% af leitum á vefnum verða raddleitir árið 2020. Raddleit er ekkert nýtt og hefur verið í þróun í mörg ár. Fáir hafa hins vegar náð að afla sér tekna með því að nýta sér raddleit. Raddleit mun í auknum mæli þróast í þeim tilgangi og má nefna að Jetson.ai hefur þróað lausn þar sem þú getur keypt vörur og þjónustu í netverslunum með raddleit. Skiptir þá ekki máli hvaða tæki er notað, Alexa, Google Home eða eitthvað annað.

Sjónræn leit
Sjónræn leit tekur upplifun neytenda upp á allt annað stig en hefðbundin leit. Þú getur til dæmis hlaðið upp mynd, framkvæmt leit og fengið niðurstöður út frá myndinni. Niðurstöðurnar geta gefið þér upplýsingar um staðsetningu og sögu hlutarins svo eitthvað sé nefnt. Pinterest Lens, Google Lens og CamFind eru meðal þeirra þjónustuveitna sem bjóða upp á sjónræna leit. Nú þegar eru framkvæmdar yfir 600 milljón sjónrænar leitir í hverjum mánuði á Pinterest.

Snjallbottar
Í dag styðjast um 70% vefsíðna við snjallbotta en heilt yfir er gæðum þeirra ábótavant, þó mikil þróun hafi átt sér stað undanfarin ár. Snjallbottar henta sérstaklega vel til þess að bæta þjónustu og sérsníða skilaboð, sjá um fyrstu svörun, meðhöndla kvartanir og veita frekari upplýsingar. Áherslan mun verða á að bæta gæði snjallbotta þannig að þeir skili raunverulega þeim árangri sem þeim er ætlað.

Sjálfvirknivæddar og sérsniðnar auglýsingar
Algórithmar samfélagsmiðla og annara fyrirtækja eins og Google byggja á gervigreind og vélnámi. Algórithmarnir eru í stöðugri þróun og verða sífellt nákvæmari. Hægt er að nýta sér ýmiskonar hugbúnað sem notar algórithma til að sjálfvirknivæða auglýsingar og ákveða í hvaða miðlum þær birtast, hvar þær eru staðsettar og á hvaða markhópa þær herja. Eins er hægt að nýta upplýsingarnar til þess að sérsníða auglýsingar að hverjum og einum.

Staðsetningarmarkaðssetning
Staðsetningarmarkaðssetning gerir fyrirtækjum kleift að nálgast hugsanlega viðskiptavini eftir staðsetningu þeirra í rauntíma. Sem dæmi má nefna veitingastað, hann skilgreinir markaðssvæði í 2 kílómetra radíus í kringum staðsetningu sína og þegar hugsanlegir viðskiptavinir eru staðsettir innan þess svæðis fá þeir skilaboð frá veitingastaðnum í formi tilkynninga eða textaskilaboða. Fyrirtæki sem reiða sig á staðsetningar, eins og verslanir og veitingastaðir, munu í auknum mæli nýta sér þessa tegund markaðssetningar.


Skilaboðaforrit


Skilaboðaforrit eins og Facebook Messenger, WeChat, WhatsApp, Snapchat og fleiri eru ótrúlega vinsæl og mikið notuð. Sem dæmi má nefna að Facebook Messenger er með 1,3 milljarð virkra notenda og 10 milljarðar skilaboða eru send á milli fyrirtækja og einstaklinga í hverjum mánuði. Miðað við þessa tölfræði þá er rökrétt að fyrirtæki vilji nýta sér þennan vettvang til að koma vörum sínum og þjónustu á framfæri. Eins eru fyrirtæki í auknum mæli farin að nýta sér þessa leið til að þjónusta viðskiptavini og selja.

Áform Facebook um að samþætta virkni Messenger, Instagram og WhatsApp þannig að hægt sé að eiga bein samskipti á milli þessara forrita, eru afar áhugaverð og verða líklega að veruleika árið 2020.


Leitarvélabestun


Leitarvélabestun mun áfram skipta miklu máli fyrir fyrirtæki þar sem aðal áherslan verður á gæði efnis. Hins vegar erum við að sjá einna mestu breytingar í leitarvélabestun frá upphafi með tilkomu raddleitar og sjónrænnar leitar. Hefðbundnar leitaraðferðir verða ekki lengur aðaláherslan í leitarvélabestun eins og hingað til.

Myndbandsmarkaðssetning er trúlega mikilvægasti straumurinn í stafrænni markaðssetningu í dag og mun líklega verða það næstu árin

Myndbönd


Myndbandsmarkaðssetning er trúlega mikilvægasti straumurinn í stafrænni markaðssetningu í dag og mun líklega verða það næstu árin. Þessu til stuðnings þá talar tölfræðin sínu máli: 70% neytenda segjast hafa deilt myndbandi frá fyrirtæki, 72% fyrirtækja segja að myndbönd hafi aukið sölu, 65% neytenda fara á vefsíður fyrirtækja eftir að hafa séð myndband frá því og 39% hringja af sama tilefni.


Neytendaefni


Neytendaefni er efni sem neytendur skapa sjálfir og dreifa á hina ýmsu miðla eins og samfélagsmiðla. Samkvæmt rannsókn Stacla þá segja 79% neytenda að efni frá öðrum neytendum hafi mikil áhrif á kauphegðun á meðan aðeins 13% segja auglýsingar hafi mikil áhrif og 8% nefna efni frá áhrifavöldum. Fólk treystir frekar hvert öðru en fyrirtækjum.


Fallegir og gagnvirkir tölvupóstar


Markaðsfólk vill gjarnan meina að markaðssetning með tölvupóstum sé dauð. Það er hins vegar rangt því hún heldur enn velli. Tölvupóstar sem innihalda lítið annað en texta eru ekki vænlegir til árangurs, enda sýna rannsóknir fram á hnignun þeirra. Í staðinn hafa komið tölvupóstar sem eru fallega hannaðir með sömu virkni og vefsíður þar sem hægt er að smella á hnappa og bjóða upp á gagnvirkar aðgerðir.

Höfundur er framkvæmdastjóri WebMo Design.