Mörg nágrannaríki, sem Ísland ber sig saman við, hafa þann hátt á að áhættuvogir fyrir skuldbindingar sveitarfélaga eru þær sömu og áhættuvogir fyrir skuldbindingar ríkisins en það skilar sér í bættum lánakjörum fyrir sveitarfélög.

Samkvæmt reglum Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands hafa áhættuskuldbindingar sveitarfélaga, sem gefnar eru út og fjármagnaðar í heimamynt þeirra, áhættuvogina 20 prósent. Hærri áhættuvog þýðir að banki þarf að binda meira eigið fé vegna skuldbindingarinnar, en það hefur áhrif á vaxtakjör. Skuldbindingar ríkissjóðs hafa hins vegar áhættuvogina 0 prósent, sem skilar sér í hagstæðum vaxtakjörum.

Evrópska bankaeftirlitsstofnunin heldur utan um lista yfir lönd í Evrópusambandinu þar sem áhættuvogir fyrir skuldbindingar sveitarfélaga eru þær sömu og áhættuvogir fyrir skuldbindingar ríkisins. Listinn sýnir að meirihluti nágrannaríkja hefur þann hátt á. Má þar nefna Svíþjóð, Danmörku, Finnland, Bretland, Holland og Þýskaland.

Óttar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Lánasjóðs sveitarfélaga, sagði nýlega í samtali við Fréttablaðið að Fjármálaeftirlitið gæti lækkað vexti sem sveitarfélög greiða af lánum frá fjármálafyrirtækjum um allt að 50 punkta, eða 0,5 prósentustig, með einu pennastriki.

„Þarna gæti hið opinbera gert lánveitingar banka til sveitarfélaga ódýrari með einu pennastriki. Ef reglurnar yrðu færðar til samræmis við það sem gengur og gerist í Evrópusambandinu, held ég að lækkun vaxta á þessum lánum geti numið allt að 50 punktum,“ sagði Óttar og benti á að samkvæmt lögum væri ekki hægt að taka sveitarfélög til gjaldþrotaskipta. „Þeir sem hafa biðlund þurfa ekki að sæta neinum afskriftum á lánum til íslenskra sveitarfélaga,“ sagði hann.

Lönd.PNG

Fréttablaðið sendi fyrirspurn á Fjármálaeftirlit Seðlabankans sem sneri að því hvort íslenska eftirlitsstofnunin viðhefði strangari túlkun en almennt gildir í þessum efnum.

„Á listanum sem þú vísar til má sjá sveitarfélög í 11 af 28 ríkjum í ESB og Bretland er eitt af þessum ellefu ríkjum. Það er því í minnihluta aðildarríkjanna sem áhættuvogir fyrir skuldbindingar sveitarfélaga eru þær sömu og áhættuvogir fyrir skuldbindingar ríkisins,“ segir í svari eftirlitsins.

„Að mati Fjármálaeftirlitsins gera hvorki núgildandi skattheimtuheimildir íslenskra sveitarstjórna né stofnanafyrirkomulag þeirra það að verkum að hægt sé að líta á að enginn munur sé á áhættu milli áhættuskuldbindinga vegna þeirra og áhættuskuldbindinga vegna íslenska ríkisins,“ segir jafnframt í svari eftirlitsstofnunarinnar sem mun þó áfram fylgjast með þróun mála á þessum vettvangi og bregðast við ef tilefni er til.