Strætó þurfti að fresta greiðslu reikninga fyrir helgi vegna fjárskorts. Það kemur fram í að­sendri grein borgar­full­trúa Sjálf­stæðis­flokksins, Kjartans Magnús­sonar, í Morgun­blaðinu í dag.

Í grein Kjartans kemur fram að á árs­fundi byggða­sam­laga síðasta föstu­dag hafi komið fram í kynningu stjórn­enda Strætó að fé­lagið sé varla rekstrar­hæft. Tap þess nam 1,1 milljarði á fyrstu níu mánuðum ársins sem er tölu­vert meira en var gert ráð fyrir, en að­eins var gert ráð fyrir 93 miljóna tapi. Þá segir Kjartan að eigið fé Strætó sé nú nei­kvætt um 22 milljónir.

Þá kemur fram í greininni að Strætó þurfi að endur­nýja Klapp-skannanna sem notaðir eru fyrir nýja greiðslu­kerfið og segir Kjartan það koma sér afar illa fyrir fé­lagið, sér­stak­lega í ljósi rekstrar­vanda þess.

„Í heilt ár hafa far­þegar fengið þau svör að um byrjunar­örðug­leika væri að ræða, sem brátt yrðu úr sögunni. Á fundinum kom hins vegar fram að lykil­búnaður greiðslu­kerfisins, þ.e. skannarnir í vögnunum, væru ó­not­hæfir til síns brúks og væri eina ráðið að skipta þeim öllum út og kaupa nýja,“ segir Kjartan í greininni.