Sænska fyrirtækið Storytel AB hefur fallið frá fyrirhuguðum samruna við Forlagið og þess í stað gert langtímasamning við bókaútgefandann um dreifingu hljóð- og rafbóka á streymisveitunni.

Þann 1. júlí síðastliðinn var tilkynnt að Storytel hygðist kaupa 70% hlut í Forlaginu. Annar seljanda og eigandi meirihluta hlutafjár í Forlaginu, bókmenntafélagið Mál og menning átti að fara áfram með 30% hlut í félaginu sem var ætlað að starfa áfram sem sjálfstætt bókaforlag, aðskilið frá streymisveitu Storytel á Íslandi.

Fyrirhugaður samruni var háður samþykki Samkeppniseftirlitsins en til stóð að Forlagið og Storytel myndu áfram starfa sjálfstætt á markaði eftir kaupin. Ekkert hefur verið gefið upp um kaupverð á hlutnum en með tilkomu samkomulagsins hefur tilkynning um fyrirhugaðan samruna formlega verið dregin til baka.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu en þar segir að samningsaðilar hafa sett sér það markmið að framleiða að minnsta kosti 600 hljóðbækur á næstu árum og þá bæði nýja og gamla titla. Um sé að ræða stórátak í raf- og hljóðbókavæðingu bóka Forlagsins og dreifingu efnisins hjá Storytel, að fengnu samþykki höfunda hverju sinni.

Lögðust gegn viðskiptunum

Fyrirhuguð kaup Storytel á meirihluta í þessari stærstu bókaútgáfu landsins reyndust umdeild og þá einkum meðal rithöfunda og annarra bókaútgefanda. Til að mynda sendi Rithöfundasamband Íslands frá sér harðorða yfirlýsingu í kjölfar fregnanna og sagðist stjórn þess vantreysta sænska móðurfélaginu og stjórnendum þess.

Í yfirlýsingunni kom fram að „reynsla höfunda af dótturfélaginu Storytel á Íslandi [væri] ekki góð og sömu sögu [megi] heyra frá félögum okkar á hinum Norðurlöndunum.“ Þar að auki lýsti stjórn Rithöfundasambandsins yfir áhyggjum yfir því að samruni stærstu bókaútgáfu og streymisveitu hljóðbóka á Íslandi myndi valda „enn meira ójafnvægi á bókamarkaði.“

Vilja stafvæða sem stærstan hluta af útgáfusögu Forlagsins

Stefán Hjörleifsson, landsstjóri Storytel á Íslandi segir að Forlagið og Storytel séu sammála um að nýja samkomulagið bæti hag neytenda og höfunda.

Þá er haft eftir Halldóri Guðmundssyni, stjórnarformanni Máls og menningar í tilkynningu að langtímasamningurinn geri íslenskar bókemenntir aðgengilegri íslenskum lesendum á hjóð- og rafbókarformi. Einnig sé hann mikilvægt skref í stafrænni þróun á íslenskum bókamarkaði.

„Útgangspunkturinn hefur allan tímann verið sá að tryggja að hægt verði að stafvæða sem stærstan hluta útgáfusögu Forlagsins og gera almenningi aðgengilegan, öllum til hagsbóta. Með undirritun þessarar viljayfirlýsingar er stigið risastórt skref í átt að því að gera stóran hluta íslenskrar bókmenntasögu sem að miklu leyti hefur við óaðgengileg, aðgengilega,“ er haft eftir Agli Erni Jóhannsyni, framkvæmdastjóra Forlagsins.

Fréttin hefur verið uppfærð.