Storytel AB, móðurfélag Storytel á Íslandi, hefur keypt 70 prósent hlut í stærstu bókaútgáfu landsins, Forlaginu.

Bókmenntafélagið Mál og menning, sem áður átti Forlagið mun áfram fara með 30 prósent hlut í félaginu.

Forlagið mun starfa áfram sem sjálfstætt bókaforlag, aðskilið frá streymisveitu Storytel á Íslandi.

Storytel er leiðandi streymisveita og útgefandi raf- og hljóðbóka í norður Evrópu og starfar á 20 mörkuðum víðsvegar um heiminn en höfuðstöðvar þess eru staðsettar í Stokkhólmi. Félagið á fyrir þrjú norræn útgáfufélög, Norstedts Förlagsgrupp í Svíþjóð, People’s Press í Danmörku og Gummerus Publishers í Finnlandi.

Starfa áfram sjálfstætt

Forlagið og Storytel á Íslandi munu starfa sjálfstætt áfram eftir kaupin og stefna Forlagsins verður áfram sú að efla íslenska útgáfu og stuðla að því að raddir íslenskra rithöfunda berist sem víðast.

Forlagið er stærsta bókaútgáfa á Íslandi. Fyrirtækið var stofnað árið 2007 af Jóhanni Páli Valdimarssyni, Agli Erni Jóhannssyni og bókmenntafélagi Máls og menningar sem hefur farið með ráðandi hlut frá árinu 2017. Forlagið gefur árlega út um 150 titla.

Velta Forlagsins var um 8 milljónir evra árið 2019 sem samsvarar um 1.100 milljónir íslenskra króna.

Samningsaðilar hafa sammælst um að kaupverðið sem verður staðgreitt, verði ekki gefið upp. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

„Forlagið byggir á aldargamalli hefð útgefenda sem hafa gert það að ævistarfi sínu að koma íslenskum bókmenntum á framfæri. Við erum afskaplega ánægð og hlökkum til samstarfsins með Storytel sem er kraftmikið nýsköpunarfyrirtæki á sviði stafrænnar útgáfu. Samstarfið mun opna margar dyr fyrir höfundum Forlagsins og færa okkur skrefi nær inn í framtíðina og nær nútíma lesendum og hlustendum," segir Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins í fréttatilkynningu.

Á myndinni eru: Kristófer Jónasson frá LOGOS, Gunnar Sturluson frá LOGOS, Stefán Hjörleifsson, landsstjóri Storytel á Íslandi og Árni Einarsson, stjórnarmaður í Mál og menningu og Forlaginu.

Sitjandi: Þórhildur Garðarsdóttir, fjármálastjóri Forlagsins, Röstan Panday, stjórnarformaður Storytel AB, Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, Soffía Eydís Björgvinsdóttir frá KPMG og Halldór Guðmundsson, stjórnarformaður Máls og menningar og Forlagsins.