Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs, segir að 2021 hafi verið mikið umbreytingaár hjá Skeljungi. Markaðurinn leitaði til stjórnenda í atvinnulífinu og bað þá um að nefna hvað hafi staðið upp úr á árinu sem er að líða og hvernig næsta ár horfi við þeim.

Hvað var krefjandi á árinu sem er að líða?

„Árið 2021 var mjög viðburðaríkt hjá Skeljungi þar sem við undirbjuggum og hrintum í framkvæmd stærstu umbreytingum í rúmlega 90 ára sögu félagsins. Í þessum umbreytingum fólst meðal annars að setja í sölu dótturfélag okkar í Færeyjum, hefja söluferli á hluta af fasteignasafni okkar, kaupa Löður og Dæluna, kaupa meirihluta í Lyfsalanum og síðast en ekki síst að skipta kjarnastarfsemi okkar upp í þrjú dótturfélög.Við höfum nánast lokið við söluna á Magn í Færeyjum og félögin þrjú sem urðu til í uppskiptingunni hófu starfsemi 1. desember. Það gefur augaleið að það er mikil áskorun að fara í svona stór verkefni á sama tíma og unnið er að því að besta reksturinn. Ef ekki væri fyrir framúrskarandi starfsfólk sem er til í að leggja mikið á sig fyrir félagið þá hefði þetta ekki verið hægt. Aðal áskorun stjórnenda Skeljungs var að eiga gott samtal við starfsfólkið, útskýra verkefnið og tryggja að starfsandinn væri góður. Það tókst og það þrátt fyrir að heimsfaraldurinn gerði okkur þetta aðeins erfiðara en í venjulegu árferði. Sífelldar breytingar, samkomutakmarkanir, uppskiptingar á starfsstöðvum og svo framvegis reyndu á starfsfólk okkar. Stórt umbreytingaár er að baki og afkomuhorfur mjög góðar.“

Hvað gekk vel á árinu 2021?

„Hagræðingaraðgerðir okkar sem miðuðu að því að straumlínulaga reksturinn, lækka kostnað og einfalda verkferla er það sem gekk vel hjá okkur. Einnig það að halda kjarnastarfseminni gangandi í heimsfaraldrinum þar sem sífellt komu nýjar áskoranir. Við fórum í gegnum árið án þess að það yrði teljandi rof á þjónustunni okkar.“

Hvernig horfir árið 2022 við þér í rekstrinum?

„Reksturinn árið 2022 verður með nýju sniði þar sem hann er kominn inn í þrjú dótturfélög. Almennt teljum við að rekstrarhorfurnar fyrir árið séu góðar. Bæði er það að markaðsaðstæður eru að batna á sama tíma og heimurinn er að læra að lifa með þeim takmörkunum sem heimsfaraldurinn hefur fært okkur.“