Mikilvægt er að heimila stórnotendum á raforku að ráðstafa umframorku inn á raforkukerfið. Þannig megi tryggja að fullnægjandi orka sé til staðar í raforkukerfinu hverju sinni.

Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins um íslenska raforkumarkaðinn. Hún var kynnt á opnum fundi samtakanna í Hörpu í morgun.

Á íslenska raforkumarkaðinum er stór hluti raforku, sem hér er framleidd, bundinn í langtímasamningum stórnotenda við orkufyrirtæki. Í slíkum samningum eru meðal annars ákvæði sem draga úr áhættu raforkusala en kaupandi orkunnar tekur á sig meiri áhættu.

„Í raforkusamningum við stórnotendur eru einnig ákvæði sem banna endursölu á umframorku. Um er að ræða fyrirkomulag sem er á margan hátt ólíkt því sem þekkist víða í nágrannalöndum okkar þar sem kaupendur hafa svigrúm til að ráðstafa allri umframorku, s.s. með sölu aftur inn á raforkukerfið,“ segir í skýrslunni.

„Með þeirri aðferð er verið að tryggja hagræði bæði seljanda og kaupanda. Þannig er umsamin raforka afhent kaupanda, en þeim síðarnefnda heimilað ákveðið hagræði að ráðstafa áfram með endursölu orku sem er ekki að fullu nýtt.“

Að sama skapi telja samtökin verulegt hagsmunamál fyrir notendur raforku hér á landi að stjórnvöld innleiði fyrirkomulag það sem í nágrannalöndum okkar kallast „prosumer“, þ.e. aðili sem bæði er framleiðandi og neytandi. Með því fyrirkomulagi er aðilum heimilt að framleiða raforku sem aukaafurð úr eigin framleiðslu og selja inn á raforkukerfið. Með slíku fyrirkomulagi sé bæði verið að stuðla að bættri orkunýtni og um leið tryggja orkuöryggi í raforkukerfinu.

Hér er hægt að nálgast skýrsluna.