Helgi Vífill Júlíusson
helgivifill@frettabladid.is
Fimmtudagur 22. október 2020
10.00 GMT

Markmið þeirra sem standa að gininu Olafsson er þríþætt: Ná fótfestu á íslenska markaðnum, hefja útflutning til fjögurra til átta landa, og loks selja í miklum mæli á erlendum mörkuðum. Þetta segir Arnar Jón Agnarsson, framkvæmdastjóri Eyland Spirits.

Hluthafar fyrirtækisins eru nokkrir Bandaríkjamenn sem efnast hafa af fjárfestingum í Kísildalnum, Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi og Arnar Jón.

„Við náðum markmiðum okkar á Íslandi og erum að róa að því að hefja útflutning,“ segir hann og nefnir að sala á gininu sé hafin í Sviss og horft sé til þess að selja til Englands, Spánar og fjögurra fylkja í Bandaríkjunum.

„Við erum stórhuga,“ segir Arnar Jón. „Það ætti að vera komin hreyfing á málin um áramót.“

Að hans sögn er framlegðin af hverri sölu ekki mikil. Því þurfi að selja í miklum mæli.

Sigurjón Sighvatsson er hluthafi í Eyland Spirits.
Fréttablaðið/Valli

Arnar Jón segir að þeir sem standi að fyrirtækinu séu fjársterkir og það hafi opnað margar dyr fyrir fyrirtækið. Hluthafarnir séu þó ekki reiðubúnir að tapa háum fjárhæðum. „Við tökum eitt skref í einu með það að leiðarljósi að ná eins langt og við getum.“

Arnar Jón segir að hugmyndin að fyrirtækinu hafi sprottið í veiðiferð árið 2015 með Bandaríkjamönnunum. „Ég er upprunalega úr veiðibransanum,“ segir hann. Arnar Jón hafði um árabil Laxá í Ásum á leigu ásamt öðrum.

„Okkur langaði til að framleiða íslenskt áfengi sem gæti keppt alþjóðlega,“ segir Arnar Jón. Lykilatriði í markaðssókninni væri íslenskt vatn og hreint framleiðsluland. Hugmyndin hafi þó ekki komist á rekspöl fyrr en eftir veiðiferð þremur árum seinna. Við hafi tekið vandaður undirbúningur, „þetta reddast-hugarfari“ var haldið í skefjum eins og kostur var.

Fleiri vörur

Að hans sögn mun Eyland Spirits bjóða upp á fleiri vörur en gin. „Gin er fyrsta varan okkar. Gin er sá áfengismarkaður sem hefur verið í mestri sókn undanfarin tíu ár.“ Gin sé auk þess framleitt úr jurtum og því hafi eins mikið af íslenskum jurtum verið nýtt til framleiðslunnar og hægt var.

„Gin er sá áfengismarkaður sem hefur verið í mestri sókn undanfarin tíu ár,“ segir Arnar Jón.

Eyland Spirits leituðu til Breta til að þróa með þeim bragðið á gininu. Sú vinna tók um ár. „Bretinn hefur komið að þróun margra af frægustu ginum veraldar,“ segir Arnar Jón. „Við vildum að bragðið myndi endurspegla Ísland; það væri ferskt með smá jörð, létt og auðdrekkanlegt og veitti fólki ánægju,“ segir hann.

Að sögn Arnars Jóns hafi þeir hitt í mark með bragðið, því Olafsson hafi hreppt tvenn gullverðlaun í sumar.

Í upphafi var lögð áhersla á að selja Íslendingum Olafsson ginið, til að sanna að varan ætti erindi á markað. „Við náðum markmiðum okkar á fyrstu þremur mánuðunum. Markmiðin lutu að því hve margar vínflöskur yrðu seldar í Vínbúðinni, hve mikið í Fríhöfninni og hve mikið til veitingahúsa og kráa. Við settum okkur háleit markmið og erum í skýjunum með viðtökurnar. Við erum til að mynda í öllum Vínbúðum landsins. Augljóst var að markaður var fyrir ginið. En svo kom COVID-19. Það setur strik í reikninginn þegar nýrri vöru er hleypt af stokkunum,“ segir hann.

Hvernig voru löndin valin sem selja á ginið til?

„Við völdum markaði eftir stærð og áhuga á gini. Að sama skapi horfðum við til markaða þar sem við höfum sambönd og eins þar sem er áhugi á íslenskum vörum.

Næstu skref hjá okkur eru að treysta okkur betur í sessi á íslenska markaðnum. Það koma nýjar og spennandi vörur á markaði eftir áramót.“

Miðinn á flöskunni, sem hannaður er af frönskum listamanni, er byggður á ferðabók 18. aldar skáldsins og náttúrufræðingsins Eggerts Ólafssonar.

Arnar Jón segir að það sé dýrt að selja í miklum mæli til stórra markaða. Sendingarnar séu stórar.

Vægi samfélagsmiðla mikið

Hvernig stundið þið markaðsstarf á erlendum mörkuðum?

„Erlendir markaðir eru eins misjafnir og þeir eru margir. Í Bandaríkjunum byggir markaðsstarfið á að finna dreifingaraðila sem hefur áhuga á þinni vöru og metnað fyrir henni. Þetta er eins og gott hjónaband, það þarf að finna rétta makann ef vel á að ganga. Auk þess þarf að styðja dreifingarfyrirtækið með markaðsefni og fjármagni. Í Sviss skiptir dreifingarfyrirtækið ekki jafnmiklu máli, því salan fer mest fram í stórmörkuðum. Þar þarf því að gera samninga beint við stórmarkaði.

Það sem hefur komið á óvart er hve vægi samfélagsmiðla er mikið í markaðssetningu. Við verðum að vera virk á samfélagsmiðlum, enda erum við að keppa við samfélagsmiðla stórfyrirtækja sem hafa verið lengi að.

Það er mikil vinna fólgin í því að pósta þrisvar til fjórum sinnum á viku. Ef vel á að vera þarf ljósmyndara, textahöfund og hugmyndasmið. Yfir árið birtast mögulega 200 innslög, þar af 20 myndbönd, og póstur númer 197 þarf að vera jafn áhugaverður og efnið sem birtist fyrst. Til viðbótar þarf ný mynd að fylgja hverjum pósti.

Við nýtum samfélagsmiðla til að auglýsa Ísland og íslenska tónlist. Einblínum ekki einvörðungu á Olafsson ginið.“

Er ekki dýrt að framleiða ginið á Íslandi og flytja út?

„Nei, í stóra samhenginu er það ekki. Það væri mun dýrara að framleiða ginið í miðríkjum Bandaríkjanna þar sem fjöldi þeirra er framleiddur í Omaha. Það gefur okkur ómetanlegan slagkraft að koma frá Íslandi. Vissulega er framleiðslukostnaður hærri, en það skiptir ekki máli hvort gæðavara er tveimur Bandaríkjadölum dýrari eða ódýrari.“

„Það gefur okkur ómetanlegan slagkraft að koma frá Íslandi,“ segir Arnar Jón.
Fréttablaðið/Valli

Heitir í höfuðið á Eggerti Ólafssyni

Arnar Jón segir að Olafsson- ginið heiti í höfuðið á 18. aldar skáldinu og náttúrufræðingnum Eggerti Ólafssyni. Hann hafi ferðast um Ísland í kringum 1750 ásamt Bjarna Pálssyni og ritað ferðabók, fyrir tilstilli Konunglega danska vísindafélagsins. Hann hafi birt nákvæma lýsingu á landinu og jurtum, og Arnar Jón segir að hann hafi ekki alltaf farið fögrum orðum um landsmenn. „Við höfum birt textabrot úr bókinni á samfélagsmiðlum.“

Að hans sögn var hægt að fara á dýptina með vörumerkið með því að tengja það við Eggert. „Miðinn á flöskunni, sem hannaður er af frönskum listamanni, er byggður á ferðabók Eggerts. Hann var magnaður maður sem dó langt fyrir aldur fram, drukknaði ásamt eiginkonu sinni, skömmu eftir brúðkaup þeirra.“

Athugasemdir