„Við höfum haft leigusamninga sumra hagnaðardrifinna leigufélaga til skoðunar, ekki þó Ölmu,“ segir Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna.

Alma íbúðafélag, hagnaðardrifið leigufélag, hefur tjáð Brynju Bjarnadóttur leigjanda að kostnaður hennar við húsaleigu hækki um 75.000 krónur eftir áramót vegna vísitölu- og vaxtahækkana. Mánaðarleg leiga hennar hækkar úr 250.000 krónum í 325.000.

Brynja er 65 ára einstæð kona og sjúklingur og leigir á Hverfisgötu.

„Ég var nú búin að sætta mig við að geta ekki haldið jól vegna peningaleysis, en ég bjóst ekki við að ég færi á götuna líka,“ segir Brynja í samtali við Fréttablaðið. Alma íbúðafélag svaraði ekki fyrirspurnum Fréttablaðsins vegna hækkunarinnar.

Leigjendur eru sá hópur sem verst hefur farið út úr vaxtahækkunum og verðbólgu undanfarið að sögn formanns Neytendasamtakanna. Álitamálin eru fjölmörg.

„Ég get ekki tjáð mig um Ölmu enda höfum við ekki skoðað það félag sérstaklega, en það er ekki bara við hækkanir að etja, sum gjöld sem lögð eru á leigjendur eru ekki í samræmi við lög,“ segir Breki.

Fjöldi ábendinga sem berst Neytendasamtökunum vegna leigumála fer vaxandi. Berast nú tæp 1.200 mál árlega, þar sem leigjendur telja á sér brotið.

Leigusalar hafi reynt að ráðstafa tryggingafé í kostnað á úttektum í blóra við lög. Dæmi eru um hótanir um riftun á leigusamningi sem ekki átti sér stoð í lögum. Einnig hefur verið hótað riftun vegna upploginna vanefnda og kostnaður vegna almenns viðhalds settur á herðar leigjanda. Þá hafa Neytendasamtökin gert ýmsar athugasemdir við sektarákvæði.

„Leigusali getur ekki sektað leigutaka en það hefur verið reynt hjá stórum leigufélögum,“ segir Breki.

Stórfelldar leiguhækkanir þýða að sumt fólk fer úr þröngri stöðu í vonlausa að sögn Breka.

„Ég er mjög hugsi yfir því að okkur berast vísbendingar um að æ fleiri leiti nú í skyndilán, yfirdrátt, smálán eða fresti greiðslum.“

Á heimasíðu Ölmu kemur fram að félagið rukkar umsýslugjald, 40.000 krónur, flutningsgjald er 120.000 krónur ef viðskiptavinur flytur sig milli íbúða innan eignasafns Ölmu og þrifagjald er allt að 65.000 krónur.

Breki segir að rúmur fimmtungur leigjenda sem leiti réttar síns hafi ekki íslensku að móðurmáli. Það gefi vísbendingu um ójafnvægið.

Formaður VR, Ragnar þór Ingólfsson, hvetur til þess að ríkisstjórnin setji neyðarlög um leigufélög. Þau ástundi "linnulausa græðgi" eins og hann orðar það.