Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir í samtali við Markaðinn að stóreignaskattur komi til með að skila litlum tekjum í ríkissjóð, draga úr nýsköpun og að líkindum ýta undir skuldsetningu almennings.

„Þar sem svona skattur skilar í stóra samhenginu litlum tekjum, eins og reynslan erlendis sýnir, þá þarf frekar lítið til að neikvæð áhrif vegi það mikið á móti að áhrifin á ríkissjóð verði hverfandi, engin eða neikvæð. Með skatti á eignir er dregið úr hvata til þess að spara sem svo dregur úr fjárfestingu.“

Konráð S. Guðjónsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Mynd/Aðsend

Í svari Kristrúnar Frostadóttur, oddvita Samfylkingarinnar í Reykjavík suður, við fyrirspurn Markaðarins segir hún að stóreignaskatturinn komi til með að skila að minnsta kosti 10 milljörðum króna.

Hún segir í samtali við Markaðinn að á kjörtímabilinu muni skattstofninn bara vaxa út af ávöxtun.

„Þannig að þessi stofn getur hæglega skilað 10 milljörðum. En við vitum að grunnurinn er gífurlegt vanmat á virði eigna í landinu því allt er metið á nafnvirði. Svo að efri mörk eru mun hærri ef gagnaöflun í tengslum við eignir yrði bætt. Þess vegna höfum við talað um hátt í 15 milljarða króna. Þetta er bara mannanna verk, að halda betur utan um þessa þætti. Við vitum allt um launafólk í landinu, en alltof lítið um eignaskiptinguna í samfélaginu, meðal annars vegna skattkerfisins.“

Konráð segir aðspurður hvert hans mat sé að stóreignaskatturinn komi til með að skila um 6 milljörðum króna. „Útreikningarnir eru mjög einfaldir. Miðað við svar fjármálaráðherra við fyrirspurn formanns Samfylkingarinnar um eignafjöldann í þessum hóp sem er með um rúmlega 200 milljónir og upp úr í hreina eign miðað við núverandi forsendur, tekur frá skattfrelsi sem er undir 200 milljónir, þá er þetta rétt mat. Þetta eru ríflega 6 milljarðar króna miðað við árið í fyrra. Miðað við þau gögn sem við höfum þá er sú staðhæfing að þessi stóreignaskattur muni skila 10 milljörðum króna fjarri lagi.“

Kristrún Frostadóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavík suður.

Kristrún segir jafnframt að það hafi ekki verið tilviljun að áhersla var á stóreignaskatt frekar en hærri fjármagnstekjuskatt. „Fjár­magnstekjuskattur er háður ávöxtun eigna, eignamiklir aðilar geta skammtað sér slíkar tekjur í gegnum félög sín, en einnig þýðir það að aðili sem hefur sótt fram og fjármagnað tækifæri hér sem hafa skilað ávöxtun er að greiða meira í skatta en aðili sem situr á fjármagninu sínu. 1,5 prósenta skattur á eignir umfram 200 milljónir króna þýðir 15 þúsund krónur fyrir hverja milljón umfram 200 milljónir á ári,“ segir hún og bætir við að skatturinn sem um ræðir sé ekki hár og sé aðeins til þess fallinn að leiðrétta þá villu sem skapast hafi í tvöföldu skattkerfi.

Hún bætir við að þau hyggist beina þessu fjármagni beint yfir í skattalækkun til barnafólks.

„Barnabætur líkt og við sjáum á Norðurlöndunum er ekkert annað en framlag til móts við almenna skattbyrði barnafólks. Við myndum vilja sjá breytingu með tíð og tíma í þessa átt, þar sem skattar eru frekar lækkaðir á tekjur en eru á móti greiddir af eignum.“

Hún segir auk þess að breytingarnar séu í takt við hagstjórnarumræðu víða um heim þar sem varað er við áhrifum eignaójöfnuðar. „Upphafseignastaða fólks skiptir gríðarlegu miklu máli, það eru ekki bara tekjurnar. Svo þetta er partur af lengri tíma vegferð að nútímavæða skattkerfið okkar, í takt við breytta heimsmynd.“

Konráð segir að þar sem skatturinn sé lagður á hreinar eignir auki það mjög hvata til skuldsetningar. „Vegna þess hversu flókinn í útfærslu skatturinn er, er hætt við að þeir sem eru tiltölulega lítið yfir fjárhæðarmörkunum muni bera þungan skatt og ekki búa við sömu úrræði til að draga úr skattbyrðinni og þeir sem eiga mestu eignirnar.“

Hann tekur einnig fram að vísbendingar séu um að skatturinn hafi neikvæð áhrif á nýsköpun.

„Það er almennt þannig með skattlagningu á fjármagn að hún minnkar ávinning af nýsköpun. Það dregur úr hvatanum til að standa í slíkri starfsemi,“ segir Konráð og bætir við að hinu gagnstæða hafi verið haldið fram.

„Maður skilur þankaganginn á bak við það að slíkir skattar ýti undir nýsköpun. En ég hef ekki enn séð neinar rannsóknir sem benda til þess og í skýrslu OECD um eignaskatta kemur fram að áhrifin séu til staðar en gerir það alls ekki að verkum eitt og sér að auka fjárfestingu. Þó má við þetta bæta að í samanburði við aðra skattlagningu þá eru áhrifin mögulega minna neikvæð við ákveðin skilyrði. En að halda því fram að það auki beinlínis fjárfestingu held ég að sé kolrangt.“

Fréttin hefur verið leiðrétt. Rangt var haft eftir Konráði á einum stað í fréttinni. Það hefur nú verið leiðrétt.