Hagnaður Ísbúðar Vesturbæjar nam 41,6 milljónum króna á árinu 2019, en um er að ræða þreföldun hagnaðar frá árinu 2018. Þetta kemur fram í ársreikningi Ísbúðar Vesturbæjar ehf.

Ísbúð Vesturbæjar rekur fimm ísbúðir á höfuðborgarsvæðinu. Upprunaleg staðsetning er við Hagamel 67 í vesturbæ Reykjavíkur, en á liðnum árum hafa fleiri verslanir verið opnaðar víðsvegar á höfuðborgarsvæðinu og eru nú alls fimm talsins.

Velta Ísbúðar Vesturbæjar nam ríflega hálfum milljarði króna á síðasta ári og jókst um 15 prósent frá árinu á undan. Hagnaður fyrir skatta, afskriftir og fjármagnsgjöld (EBITDA) var tæplega 65 milljónir króna og framlegðarhlutfall rekstrar Ísbúðar Vesturbæjar því um 12,6 prósent á árinu 2019.

Í skýringum með ársreikningnum kemur fram að veruleg óvissa hafi skapast vegna Covid 19-faraldursins. Hins vegar segir þar einnig að áhrifin á rekstur félagsins fyrstu sjö mánuði ársins hafi verið óveruleg.

Engar langtímaskuldir hvíldu á rekstri Ísbúðar Vesturbæjar við árslok 2019, en skuldir upp á ríflega fimm milljónir voru greiddar til baka að öllu leyti á síðasta rekstrarári.