Hagnaður verðbréfa- og fjárfestingasjóða Íslandssjóða nam 10,4 milljörðum á síðasta ári en hagnaðurinn, sem nær tvöfaldaðist á milli ára, rennur til viðskiptavina Íslandssjóða í formi ávöxtunar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá félaginu.

Þar segir að allir verðbréfa- og fjárfestingasjóðir Íslandssjóðs hafi skilað jákvæðri raunávöxtun á síðasta ári. Þá hafi sjóðurinn IS EQUUS Hlutabréf skilað bestu ávöxtun slíkra sjóða á landinu og fleiri sjóðir Íslandssjóða hafi jafnframt verið í efsta sæti í sínum flokki á landsvísu samkvæmt flokkun Keldunnar.

Íslandssjóðir, sem voru með eignir upp á 309 milljarða króna í stýringu í lok síðasta árs, högnuðust um 436 milljónir króna í fyrra borið saman við 278 milljóna króna hagnað árið 2018.

Hreinar rekstrartekjur sjóðastýringarfélagsins voru 1.713 milljónir króna í fyrra samanborið við 1.469 milljónir króna árið áður. Þá námu rekstrargjöld félagsins 1.168 milljónir króna árið 2019 en þau voru 1.121 milljón króna árið áður.

Kjartan Smári Höskuldsson, framkvæmdastjóri Íslandssjóða, segir í tilkynningu það sérstaklega ánægjulegt þegar svo vel takist til að allir viðskiptavinir félagsins njóti góðrar ávöxtunar. Meðalávöxtun sjóða í stýringu Íslandssjóða hafi verið yfir ellefu prósent á árinu.

„Einnig náðum við þeim sjaldséða árangri að skila bestu ávöxtun á landsvísu í þremur flokkum af fjórum samkvæmt flokkun Keldunnar,“ nefnir hann.

Kjartan segir árið 2020 einnig fara vel af stað en margt bendi þó til þess að ávöxtun skuldabréfa verði lægri í ár en hún hafi verið undanfarið.

„Því eru viðskiptavinir að dreifa sparnaði sínum á milli eignaflokka og velja bæði erlenda og innlenda hlutabréfasjóði í bland við skuldabréf og innlán. Eignadreifing er alltaf skynsamlegur kostur í sparnaði sem hugsaður er til lengri tíma,“ er haft eftir Kjartani í tilkynningunni.