Hagnaður HS Veitna var 1.592 milljónir króna á síðasta ári og jókst um meira en 130 prósent frá fyrra ári þegar hann var um 682 milljónir króna. Aukningin kemur að stærstum hluta til vegna niðurfellingar á langtímaskuldum félagsins í kjölfar dóms Hæstaréttar í deilumáli þess og HS Orku.

Án áhrifa af umræddri niðurfellingu hefði heildarhagnaður HS Veitna verið ríflega 900 milljónir króna í fyrra.

Hæstiréttur staðfesti sem kunnugt er dóm Landsréttar þess efnis að samkomulag HS Orku og HS Veitna frá árinu 2011 um greiðslur síðarnefnda félagsins á hluta af reiknuðum lífeyrisskuldbindingum sem hvíldu á hinu fyrrnefnda hefði verið ólögmætt.

Rekstrartekjur HS Veitna voru um 7,2 milljarðar króna í fyrra, borið saman við 6,9 milljarða króna árið 2018, og þá var rekstrarhagnaður félagsins ríflega 1,7 milljarðar króna árið 2019 og jókst um þrettán prósent á milli ára.

HS Veitur áttu eignir upp á 30,9 milljarða króna í lok síðasta árs en á sama tíma var eigið fé félagsins 14,4 milljarðar króna og eiginfjárhlutfallið því 47 prósent.

Lífeyrissjóðirnir Frjálsi, Almenni og Eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna bættu við sig í HS Veitum, í gegnum HSV eignarhaldsfélag, á síðasta ári, eftir því sem fram kemur í ársreikningi eignarhaldsfélagsins sem fer með 34 prósenta hlut í veitufyrirtækinu. Þá bættist Festa lífeyrissjóður í hluthafahóp eignarhaldsfélagsins með tveggja prósenta hlut.

Eins og kunnugt er seldu Akur fjárfestingar og TM samanlagt 29 prósenta hlut í HSV eignarhaldsfélagi í fyrra til framtakssjóðsins Innviða fjárfestinga sem er að langstærstum hluta fjármagnaður af lífeyrissjóðum.