Frá því um mitt síðasta ár hafa reglulega borist fregnir af stóraukinni þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði, enda tvöfaldaðist fjöldi almennra hluthafa í kauphöllinni á undraskömmum tíma.

Þannig fjölgaði einstaklingum sem áttu hlutabréf í Kauphöllinni úr tæplega níu þúsund manns í lok árs 2019, í tæplega sautján þúsund manns í lok síðasta árs.

Eftir snarpar lækkanir á hlutabréfamörkuðum fyrr á þessu ári virðist heldur hafa dregið úr þessum áhuga. Sjónir sparifjáreigenda beinast nú í auknum mæli að öðrum ávöxtunarleiðum sem bera minni áhættu.

Það er mjög eðlilegt að fólki velti þessu meira fyrir sér nú þegar vextir á innlánum eru neikvæðir

Gústav Gústavsson, hjá verðbréfa- og lífeyrisþjónustu Landsbankans, segir greinilegt að sparifjáreigendur séu með hugann við mismunandi ávöxtunarleiðir um þessar mundir. Það merkir hann á mikilli aukningu nýrra fyrirspurna.

„Flestar fyrirspurnirnar eru mjög skiljanlegar. Það er algengast að fólk vilji vita hvar það geti geymt peninginn þannig að hann haldi verðgildi sínu, án þess þó að taka of mikla áhættu. Það er mjög eðlilegt að fólki velti þessu meira fyrir sér nú þegar vextir á innlánum eru neikvæðir og horfur á vaxandi verðbólgu,“ segir Gústav.

„Þetta er náttúrulega, til þess að gera, nýtt umhverfi fyrir okkur Íslendingum. Hefðbundnir bankareikningar hafa oft skilað raunávöxtun. Tala nú ekki um þegar verðbólga fór alveg niður í eitt og hálft prósent. Við slíkar aðstæður hefur fólk ekki áhyggjur af þessu. En umhverfið er allt annað núna og hefur breyst frekar hratt.“

Gústav segir áberandi hvað fólk virðist meðvitað um stöðuna. Það hafi ekki þó alltaf verið raunin. Ekki einu sinni á þeim árum þegar verðbólga var mun meiri en nú.

En þegar upphæðirnar eru lágar, eins og í dag, þá er eins og fólk átti sig frekar á samhenginu. Áhrifin eru svo bersýnileg.

„Ég nefni gjarnan dæmi frá árinu 2009 í þessu sambandi. Þá fór verðbólga upp í 18 prósent og vaxta­reikningar báru 15 prósenta vexti á sama tíma. Það þýddi auðvitað að ávöxtun var neikvæð upp á þrjú prósent á ári. En fólk upplifði það ekki þannig þegar það fékk vextina greidda út. Upphæðin var svo há að það áttaði sig ekkert endilega á stöðunni. En þegar upphæðirnar eru lágar, eins og í dag, þá er eins og fólk átti sig frekar á samhenginu. Áhrifin eru svo bersýnileg.“

Gústav segir mikilvægt að átta sig á helstu grundvallaratriðum í þessum efnum.

„Flestir leita til okkar með þessar eðlilegu spurningar um áhættu. Þá byrjum við alltaf á að fara yfir það hvernig skuldabréf virka. Það er alltaf þessi varfærni valkostur sem myndar kjölfestuna í fjárfestingum lífeyrissjóða til að mynda. En almennt séð er mikilvægt að hafa í huga að allir þessir sjóðir, sem standa fólki til boða, eru hugsaðir til lengri tíma. Helst nokkurra ára. Það er auðvitað hægt að standa í þessu sjálfur eins og margir hafa gert undanfarin ár. Kaupa hlutabréf og taka þá áhættu sem því fylgir. En það er ekkert endilega umhverfi sem hentar öllum. Í grunninn eru flestir að hugsa um að verja sitt sparifé og takmarka áhættu. Það er langstærsti hópurinn,“ segir Gústav.

„Svo þurfum við líka að muna að það lentu mjög margir í skakkaföllum sem tengdust hlutabréfum í kjölfar hrunsins. Það skýrir vissulega tortryggni fólks og ég skil fullkomlega hvaðan hún er sprottin.“

Að öllu samandregnu segir Gústav aldrei hægt að tala um neinar töfralausnir þegar kemur að ávöxtun sparifjár.

„Þetta snýst á endanum um þolinmæði og sígandi lukku. Það er að segja ef fólk er ekki tilbúið til að taka þeim mun meiri áhættu með sitt sparifé,“ segir Gústav að lokum.