Til einstaklinga seldust 420 nýir fólksbílar í febrúar nú en 342 í fyrra og er því aukning í sölu til einstaklinga 22,8 prósent milli ára í febrúar. Á árinu 2022 hafa selst 941 nýir fólksbílar til einstaklinga en í fyrra höfðu selst 691 nýir fólksbílar á sama tíma sem þýðir aukningu í sölu til einstaklinga um 36 prósent á þessu ári.

Almenn fyrirtæki (önnur en ökutækjaleigur) keyptu 157 nýja fólksbíla í febrúar í ár en í fyrra var fjöldinn 137. Á þessu ári hafa selst 300 nýir fólksbílar til almennra fyrirtækja en 2021 voru seldir 332 nýir fólksbílar og er því samdráttur í sölu nýrra fólksbíla til fyrirtækja um 10 prósent sé horft til sama tímabils 2021.

Sala til ökutækjaleiga jókst svo um munaði frá síðasta ári þegar áhrifa Covid gætti enn af fullum krafti um allan heim. Ferðalög milli landa árið 2021 voru því umtalsvert minni en í eðlilegu árferði og fundu ferðaþjónustan, ekki síst ökutækjaleigur á Íslandi, gríðarlega mikið fyrir þeim áhrifum sem endurspegluðust í sölu nýrra fólksbifreiða til ökutækjaleiga.

Segja má að með bjartari tímum og afléttingum hafta hafi ökutækjaleigur tekið vel við sér og greinilegt að þörfin á nýjum bílum er mikil. Í febrúar voru 297 nýir fólksbílar seldir til ökutækjaleiga en fjöldinn í sama mánuði í fyrra var 72. Aukning í sölu nýrra fólksbíla til ökutækjaleiga í febrúar er því 311 prósent miðað við síðasta ár.

Nýorkubílar (rafmagns, tengiltvinn og metan) eru 57,9 prósent allra seldra nýrra fólksbíla á árinu en hlutfall nýorkubíla heldur áfram að aukast jafnt og þétt (rafmagn 19,5 prósent, tengiltvinn 38,4 prósent) en þetta hlutfall var í heildina um það bil 47 prósent á sama tíma á síðasta ári.

Sé horft til síðasta árs þá hefur sala á tengiltvinnbílum aukist það sem af er ári og ræður þá væntanlega mestu að fyrirsjáanlegt er að verð þeirra hækki vegna afnáms ívilnana stjórnvalda.

Hybrid bílar standa nánast í stað sé sama tímabíl skoðað á milli ára og stendur í tæpum 18,5 prósentum af heildarsölu nýrra bíla.

Fleiri velja nú annaðhvort hreina rafmagnsbíla eða tengiltvinnbíla, enda heldur hlutfall aksturs á rafmagni tengiltvinnbíla áfram að aukast með aukinni drægni og betri tækni. Flestir nýir tengiltvinnbílar hafa orðið það mikla drægni í akstri á rafmagni eingöngu að það dugar til daglegrar notkunar flestra og þá sérstaklega við akstur innanbæjar. Hlutfall nýorkubíla (rafmagn og tengiltvinn) seldir í febrúar var 52,8 prósent

Toyota var mest selda fólksbílategundin í febrúar með 109 selda bíla. Þar á eftir kemur KIA með 86 selda bíla og þriðja mest selda fólksbílategundin í febrúar var Hyundai með 80 nýja fólksbíla skráða. Mest selda fólksbílategundin það sem af er árinu 2022 er Toyota með 220 selda bíla en þar á eftir kemur KIA með 179 selda bíla og þriðja söluhæsta fólksbílategundin það sem af er ári er Hyundai með 80 selda fólksbíla.