Fjölmörg Evrópuríki hafa á undanförnum dögum lækkað eða afnumið sérstakan sveiflujöfnunarauka sem leggst ofan á eiginfjárkröfur banka í því augnamiði að auka svigrúm banka til þess að hjálpa heimilum og fyrirtækjum að takast á við afleiðingar kórónaveirunnar.

„Þegar hagkerfið verður fyrir verulegu höggi er mikilvægt að bankar haldi áfram að lána til heimila og fyrirtækja. Það sem við erum að gera er að stórauka lánagetu þeirra,“ sagði Erik Thedéen, forstjóri sænska fjármálaeftirlitsins, þegar hann tilkynnti um lækkun sveiflujöfnunaraukans á sænska banka úr 2,5 prósentum í núll prósent síðasta föstudag.

Norsk stjórnvöld ákváðu sama dag að lækka sveiflujöfnunaraukann þar í landi úr 2,5 prósentum í eitt prósent, að ráðleggingu Seðlabanka Noregs, en yfirvöld í Danmörku höfðu daginn áður gripið til þess ráðs að hætta við fyrirhugaða hækkun á eiginfjáraukanum - úr 1,5 prósentum í tvö prósent - og af létta honum þess í stað alfarið.

Var markmiðið sagt að „hjálpa lánastofnunum að halda áfram að veita nægilega mikið af útlánum“, eins og það var orðað í tilkynningu danska fjármálaráðuneytisins, en þar kom jafnframt fram að afléttingin gerði það að verkum að þarlendir bankar gætu aukið útlán sín um allt að 200 milljarða danskra króna.

Núll prósent í tvö ár

Breska fjármálastöðugleikanefndin dró einnig til baka í liðinni viku fyrirhugaða hækkun á sveiflujöfnunaraukanum – úr einu í tvö prósent - og ákvað að lækka hann í núll prósent. Var tekið sérstaklega fram í yfirlýsingu nefndarinnar að hún gerði ráð fyrir að eiginfjáraukinn yrði núll prósent í að minnsta kosti tvö ár.

„Þetta þýðir að engar hindranir ættu að standa í vegi fyrir því að bankar veiti lánsfé til hagkerfisins og mæti þörfum fyrirtækja og heimila í gegnum tímabundna erfiðleika,“ sagði í yfirlýsingu nefndarinnar. Lækkunin verður til þess að útlánageta breskra banka mun aukast um allt að 190 milljarða punda, að sögn Englandsbanka, en það jafngildir þrettánfaldri fjárhæð nettólána banka landsins til fyrirtækja á síðasta ári.

Til viðbótar hefur umræddur sveiflujöfnunarauki ýmist verið lækkaður eða afnuminn síðustu daga í Belgíu, Hong Kong, Litháen og Tékklandi. Hafa ber í huga að minnihluti Evrópuríkja nýtir heimildir til þess að leggja á sveiflujöfnunarauka.

Eiginfjáraukanum er til útskýringar ætlað að auka viðnámsþrótt fjármálakerfisins og milda þar með fjármálasveiflur. Þannig er hugsunin sú að aukinn hækki samhliða vexti í kerfisáhættu, þegar uppsveifla verður í fjármálakerfinu, en lækki þegar harðnar á dalnum í niðursveiflu.

Hámark sveiflujöfnunaraukans er 2,5 prósent og er honum því ætlað að sveiflast frá núlli að þeim mörkum yfir fjármálasveifluna.

Evrópuríki slaki á kröfum

Evrópsk bankamálayfirvöld sögðust í síðustu viku ætla að slaka á reglum um eiginfjárkröfur til evrópskra banka, til þess að hjálpa bönkunum að takast á við lausafjárvanda sem mörg fyrirtæki glíma við vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Um leið hvöttu þau stjórnvöld í Evrópuríkjum til þess að grípa til sams konar aðgerða þegar kæmi að sveiflujöfnunaraukanum, en beiting eiginfjáraukans er á verksviði yfirvalda í hverju ríki fyrir sig.

„Bankar þurfa að vera í stakk búnir til þess að halda áfram að fjármagna heimili og fyrirtæki sem glíma við tímabundna erfiðleika,“ sagði Andrea Enria, formaður Evrópsku bankaeftirlitsstofnunarinnar, við það tilefni.

Stofnunin sagðist einnig ætla að fresta álagsprófum ársins en prófunum, sem eru árleg, er ætlað að meta viðnámsþrótt stærstu banka álfunnar í hugsanlegu efnahagsáfalli.

Enria bætti þó við að lánveitendur ættu að sýna „skynsemi“ þegar þeir greiddu hluthöfum arð og starfsmönnum bónusa. Þrátt fyrir aukinn ríkisstuðning og sveigjanlegri reglur ættu stjórnendur banka áfram að kappkosta að gæta að ábyrgð og hagsýni í rekstri.

Þórarinn G. Pétursson, framkvæmdastjóri hagfræði og peningastefnu Seðlabankans, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og Haukur Camillus Benediktsson, framkvæmdastjóri fjármálastöðugleikasviðs, á fundi í bankanum í gærmorgun.

Aflétta aukanum hér í tvö ár

Stjórnvöld hér á landi hafa fylgt í fótspor áðurnefndra Evrópuríkja en fjármálastöðugleikanefnd Seðlabanka Íslands hefur sem kunnugt er ákveðið að aflétta tveggja prósenta kröfu um sveiflujöfnunarauka á banka. Verður hann því núll prósent.

Fram kom í yfirlýsingu nefndarinnar að hún myndi ekki hækka sveiflujöfnunarukann á næstu tólf mánuðum og verður hann því óbreyttur í að minnsta kosti tvö ár eða fram á fyrsta ársfjórðung 2022.

Þá var tekið fram að afléttingin myndi auðvelda bankakerfinu að styðja við heimili og fyrirtæki með því að skapa svigrúm til nýrra útlána sem nemur að öðru óbreyttu allt að 350 milljörðum króna eða um 12,5 prósentum af núverandi lánasafni.

Nefndin sagðist auk þess ætlast til þess að það svigrúm sem lækkun sveiflujöfnunaraukans skapaði yrði notað til þess að styðja við heimili og fyrirtæki. Brýndi hún fyrir bönkum að þeir tækju tilliti til þeirrar miklu óvissu sem væri uppi í þjóðarbúskapnum við ákvörðun um útgreiðslu arðs og endurkaup á eigin hlutabréfum á komandi misserum.