Forstjórar Hertz og Höldurs, sem eru á meðal stærstu bílaleiga landsins, segja að fyrirtækin hafi ekki þurft sértækar aðgerðir í lánamálum í tengslum við COVID-19 aðrar en að fresta greiðslu lána, eins og öðrum fyrirtækjum hafi staðið til boða.

Sigfús Bjarni Sigfússon, forstjóri Hertz, segir í samtali við Markaðinn að það varpi ljósi á það traust sem lánveitandi bílaleigunnar hafi á fyrirtækinu, að hann hafi nýverið lánað fyrir kaupum á tæplega 400 bílum.

Efnahagsreikningur bílaleiga er stór og kaup á bílum eru fjármögnuð með aðstoð lánastofnana. Árið 2018 námu eignir Höldurs, sem starfar undir merkjum Europcar og Bílaleigu Akureyrar, 14,6 milljörðum króna og vaxtaberandi skuldir voru tæplega 13 milljarðar. Sama ár námu eignir Hertz 5,6 milljörðum króna og skuldir voru tæpir fjórir milljarðar króna. Um er að ræða nýjustu opinbera ársreikninga fyrirtækjanna.

Sterkir á heimamarkaði

Steingrímur Birgisson, forstjóri Höldurs, segir í samtali við Markaðinn að fyrirtækið, sem hefur verið í rekstri frá árinu 1966, hafi sterka stöðu á innanlandsmarkaði. „Það hjálpar okkur,“ segir hann. Á heimamarkaði sé mikið um skammtímaleigu, langtímaleigu og auk þess hafi Höldur samning við Ríkiskaup.

Að hans sögn hafi aðalmálið í rekstrinum að undanförnu lotið að því að semja við bílaumboðin, um að þurfa ekki að kaupa 1.300 bíla sem Höldur hafði pantað en hafði ekki not fyrir, vegna breyttra aðstæðna í kjölfar COVID-19. Ásamt því að starfsmannafjöldi taki mið af breyttu umfangi.

Steingrímur segir að í ljósi þess að bílaleigubílunum verði ekið minna, sé handhægt að lengja í lánunum, enda mun endingartími bílanna lengjast að sama skapi.

Höldur rekur einnig bílasölu, bílaverkstæði, dekkjaverkstæði og er í fasteignarekstri. Mestu umsvifin eru hjá bílaleigunni.

Bankinn sýnir skilning

Sigfús Bjarni segir að Hertz sé stöndug bílaleiga, sem hafi verið í rekstri í 48 ár. Bankinn hafi sýnt því skilning að lítið verði um ferðamenn á næstunni. „Bankinn hefur veitt okkur, eins og mörgum öðrum, greiðslufrest,“ segir hann.

Hann segir að Hertz hafi gengið vel að selja notaða bíla úr flotanum að undanförnu og að meiri ásókn sé í langtímaleigu en áður, enda séu fleiri Íslendingar á landinu en alla jafna.

Sigfús segir að Hertz hafi pantað tæplega þúsund bíla. en eftir að COVID-19 braust út, var samið við bílaumboðin um að kaupa þess í stað 400 bíla í ár. Þar spili inn í að bílaframleiðendur lokuðu verksmiðjum um tíma og gátu því ekki afhent bíla.