Þessi faraldur er eitt mesta efnahagsáfall sem heimurinn hefur nokkurn tíma upplifað og það verður mjög mismunandi á milli ríkja hvernig þeim mun takast að vinna sig út úr þessu. Ég er þess fullviss að við verðum þar fremst í flokki með því að klára bólusetningu fljótt og um leið hefja skjóta efnahagslega viðspyrnu á meðan önnur og stærri hagkerfi í Evrópu munu eiga í meiri og þrálátari erfiðleikum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins.

Í viðtali við Markaðinn ræðir Lilja, sem situr einnig í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins, meðal annars um efnahagsaðgerðir stjórnvalda og segir nauðsynlegt að beina þeim sparnaði sem hefur safnast upp í hagkerfinu í fleiri áttir en á fasteignamarkað.

„Eitt af stóru úrlausnarefnunum okkar á næstu árum svo auka megi hér fjárfestingastigið,“ útskýrir Lilja, „er að fá sparnað landsmanna í meira mæli inn á verðbréfamarkaðinn þannig að almenningur komi að kaupum á hlutabréfum og skuldabréfum beint.“

Við stóðum vel að vígi þegar faraldurinn hófst. Mikill gjaldeyrisforði og skuldléttur ríkissjóður, sem stafaði meðal annars af stöðugleikaframlögum við uppgjör slitabúa. Hverju hefur þetta breytt?

„Þetta hefur skipt öllu máli og gert okkur kleift að takast á við þessar hamfarir. Sem lítið, opið hagkerfi skiptir það okkur höfuðmáli að ráða yfir stórum gjaldeyrisforða sem gefur peningastefnunni nauðsynlegan trúverðugleika og samspili hennar við ríkisfjármálin. Þegar við komum inn í svona kreppu, þegar langsamlega stærsti útflutningsatvinnuvegur landsins hefur þurrkast út, þá er mikilvægast að tryggja að það skapist aldrei það ástand að það verði hætta á gjaldeyrisskorti – og við höfum aldrei verið nærri því að vera í þeirri stöðu frá því að faraldurinn fór af stað.

Það var hægur leikur að átta sig fljótt á því að þjónustujöfnuðurinn yrði nálægt núlli og færi aftur í það horf sem hann var, fyrir uppgang ferðaþjónustunnar. Ferðatakmarkanir vegna faraldursins þýddu að Íslendingar eyddu ekki peningum í útlöndum og erlendir ferðamenn voru ekki að eyða peningum á Íslandi. Þá vissum við að gjaldeyrisforðinn, sem er um þriðjungur af landsframleiðslunni, væri það stór að við hefðum að minnsta kosti úthald í 18 til 24 mánuði ef allt færi á versta veg. Þegar markaðsaðilar áttuðu sig á þessari stöðu skapaðist traust á peningastefnunni og að verðbólgan færi ekki á skrið.

Við eigum ekki að taka stuðning ríkisins til baka of snemma, eins og Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti gerði 1937 og sá strax mjög eftir því, og það stendur heldur ekki til.

Þessi staða hefði ekki verið uppi ef við hefðum ekki búið í haginn á góðu árunum til að safna í forðann þegar hagkerfið skapaði meiri gjaldeyri en það var að eyða, ásamt því að greiða niður skuldir ríkissjóðs sem voru aðeins rúmlega 20 prósent af landsframleiðslu við upphaf faraldursins.

Ég held því fram að ekkert annað ríki hafi í reynd stutt eins mikið við hagkerfið og við höfum gert í þessari kreppu. Þegar beinar og óbeinar aðgerðir, sem stafa einkum af sjálfvirku viðbragði skattkerfis og atvinnuleysistrygginga, eru teknar saman, munum við fara vel yfir 12 prósent og jafnvel meira,“ fullyrðir Lilja.

„Allt sem við höfum gert ræðst af þeirri forsendu að staða ríkissjóðs sé traust og að skuldirnar muni ná hámarki í 60 prósentum af landsframleiðslu. Við verðum í mun betri stöðu en flest önnur ríki í Evrópu um leið og við höfum bólusett og varið fólkið okkar. Ég spái því að þetta gerist hraðar hér á Íslandi en annars staðar, því innviðirnir eru traustir.“

Nú spilar Ísland vart í sömu deild og önnur stór hagkerfi sem geta leyft sér efnahagslegar aðgerðir, bæði í ríkisfjármálum og með peningastefnuna, án þess að þurfa að óttast eins áhrifin á vaxtastigið. Setur þetta okkur stífari skorður varðandi skuldasöfnun og hversu langt við getum þar gengið.

„Ég fullyrði að ef við hefðum ekki farið í allar þessar aðgerðir þá hefði atvinnuleysið, sem mælist engu að síður nú um tólf prósent, verið jafnvel enn meira.

Þegar við erum að bera saman hagkerfi þá skiptir auðvitað máli hvort viðkomandi ríki er með forða­mynt, eins og Bandaríkin, sem geta þá skuldsett sig meira en ella og vaxið út úr skuldavandanum á grunni lágra vaxta. Fyrir önnur hagkerfi, eins og Ísland, þá verðum við að fara gætilega og passa að verðbólguvæntingar séu á þeim stað sem við viljum – í kringum 2,5 prósent – á meðan mörg önnur stærri hagkerfi eru hins vegar í þeim sporum að verðbólguvæntingar mælast afar lágar og hagvöxturinn sömuleiðis. Það er ekki endilega eftirsóknarverð staða að vera í.

Nú þegar okkur er að takast að kveða faraldurinn niður með bólusetningu, þá verðum við að einblína á að koma atvinnulífinu af stað, meðal annars með skattalegum hvötum fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, og þannig ná atvinnuleysinu niður, en það kostar ríkissjóð um 90 til 100 milljarða á ári. Þetta eru svakalegar upphæðir. Fjárhagslegi kostnaðurinn er eitt, en síðan er það allur félagslegi kostnaðurinn, mannauðurinn sem fer til spillis vegna skorts á vinnu. Ég hef ekki áhyggjur af þessari auknu skuldsetningu ríkissjóðs sem slíkri. Við fórum með þær yfir 90 prósent á sínum tíma eftir bankahrunið, en náðum þeim hratt aftur niður.“

„Við eigum að taka varfærin en ákveðin skref í þá veru að fólk fari að taka ákvarðanir sjálft um sparnað sinn og verði um leið meiri þátttakendur þegar kemur að fjárfestingu og uppbyggingu í atvinnulífin," segir Lilja.


Megum ekki vera værukær


Vaxtakostnaður ríkissjóðs, sem hlutfall af landsframleiðslu, verður mun hærri hér á komandi árum í samanburði við önnur vestræn ríki sem skulda engu að síður mun meira. Getum við gert betur við að ná lánskjörum á markaði niður og ætti ríkið að sækja sér lán erlendis?

„Ég er í engum vafa um að ríkið eigi að fara í stóra skuldabréfaútgáfu erlendis og ég hef verið þeirrar skoðunar að það eigi að gerast fyrr frekar en síðar. Lánskjörin sem bjóðast nú eru mjög góð. Við skulum samt muna að það er best að fara út á markaðinn verandi í sterkri stöðu, þegar við þurfum í raun ekki á lánsfjármagni að halda.

Við komum inn í þennan faraldur, ólíkt flestum öðrum Evrópuríkjum, í þeirri stöðu að geta lækkað vexti Seðlabankans verulega. Það hefur tekist vel – verðbólguvæntingar eru við markmið og raunvextir eru neikvæðir, sem styður við hagkerfið í gegnum þessar þrengingar. Það er margt sem vinnur með okkur. Við erum enn með góða aldurssamsetningu, það er eftirsóknarvert fyrir fólk frá öðrum ríkjum að koma hingað og starfa og við eigum að fagna því hversu opinn og sveigjanlegur vinnumarkaðurinn er. Þá hefur safnast upp mikill sparnaður í hagkerfinu sem á eftir að nýtast okkur vel við að auka hér fjárfestingarstigið. Þannig að við erum að mínu viti með allar forsendur fyrir hendi svo að þessi áratugur verði frá efnahagslegu sjónarhorni mjög góður.

Það þýðir samt ekki að við eigum að vera værukær. Stjórnvöld og eftirlitsstofnanir þurfa eftir sem áður að fylgjast mjög náið með því hvernig allar þjóðhagsstærðir eiga eftir að þróast þegar efnahagslífið verður komið á fullt á nýjan leik; um leið og við sjáum að peningamagn í umferð er farið að aukast meira en góðu hófi gegnir, eða það fer að skapast mikill þrýstingur á ákveðna eignamarkaði, þá eigum við að vera óhrædd við að grípa til þeirra tækja og tóla sem við ráðum yfir – af því að hagkerfið okkar er svo lítið að þá kallar það á að við séum ávallt meira á tánum en stærri þjóðir.“

Stóri munurinn á lausara taumhaldi í kórónakreppunni og síðustu fjármálakreppu er að þá leitaði nýtt fjármagn ekki í útlán heldur til að tryggja eigin- og lausafjárkröfur fjármálastofnana. Nú er nýja fjármagnið – peningaprentunin – hins vegar að fara í aukin útlán, einkum til heimila. Er ástæða til að óttast að þetta muni skila sér í auknum verðbólguþrýstingi?

„Við eigum að fylgjast mjög náið með þeirri þróun, ásamt öðrum þjóðhagsstærðum, og hvaða áhrif þær óvenjulegu aðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til eru að hafa. Sjálfvirku sveiflujafnararnir, sem eiga einmitt að minnka taumhald ríkissjóðs og styðja við hagkerfið í svona efnahagshremmingum, hafa meðal annars haft veruleg áhrif og umfang þeirra óbeinu aðgerða nemur um 250 milljörðum króna.

Ég fullyrði að stóra áskorunin í hagstjórn hins opinbera, ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans, er ekki núna, heldur verður hún eftir um tólf til átján mánuði.

Við eigum hins vegar ekki að taka stuðning ríkisins til baka of snemma, eins og Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti gerði 1937 og sá strax mjög eftir því, og það stendur heldur ekki til. Það er mikilvægt að halda áfram að örva innlenda eftirspurn og einkaneyslu, halda uppi samneyslunni og koma fjárfestingunni af stað, þannig að hér myndist sjálfbær hagvöxtur sem mun auðvitað ráðast af þeim útflutningstekjum sem þjóðarbúið skapar þegar fram líða stundir.“

Ferðaþjónustan stóð undir um þriðjungi af öllum gjaldeyristekjunum fyrir faraldurinn. Erum við að fara að reiða okkur jafn mikið á hana og áður, eða þurfum við að horfa til annarra vaxtasprota?

„Ég er ekki í vafa um að ferðaþjónustan verður tvímælalaust áfram ein okkar mikilvægasta útflutningsgrein. Við eigum eftir að sjá fólk ferðast mjög mikið á milli landa um leið og þessum faraldri slotar.

Það er hins vegar ólíklegt, og ekki endilega æskilegt, að ferðaþjónustan muni bera uppi hagvöxt hér á landi eins og hún gerði á árunum 2010 til 2018. Þess vegna þurfum að horfa til fleiri vaxtasprota með áherslu á nýsköpun, rannsóknir og þróun. Sú fjárfesting sem við höfum ráðist í, sem byggir einkum á endurgreiðslum á rannsókna- og þróunarkostnaði og skattafrádrætti, skapar mikla hvata fyrir nýsköpunarfyrirtæki til að ráða til sína fleira fólk, eins og við höfum séð gerast.

Fjárfesting í þessum málaflokki hefur aukist um tæp 80 prósent og við ætlum að taka þátt í því að skapa fleiri störf í þekkingargreinum. Nýtt reiknilíkan háskólastigsins verður tilbúið í febrúar, sem leggur áherslu á þekkingargreinar í auknum mæli. Ný menntastefna, sem grundvallast á því að nemendur geti beitt rökvísi, ígrundun og hafi hugrekki til að skapa, markar þar tímamót.“


Skýrari línur á nýju ári


Lilja starfaði um langt skeið hjá Seðlabankanum, sem aðstoðarframkvæmdastjóri á skrifstofu seðlabankastjóra og alþjóðasamskipta, þar sem hún sá meðal annars um samskipti við lánshæfismatsfyrirtækin.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri en Lilja bendir að nú þegar bankinn sé að fara í óhefðbundnari aðgerðir, eins og með magnbundna íhlutun, að hann geti ekki gengið jafn langt í þeim efnum eins og til dæmis sá bandaríski..


Það hefur mætt mikið á Seðlabankanum frá því að faraldurinn hófst. Vextir hafa verið teknir niður fyrir eitt prósent og bankinn boðaði magnbundna íhlutun með kaupum á ríkisbréfum fyrir allt að 150 milljarða. Hvernig finnst þér hafa tekist til?

„Það voru auðvitað blikur á lofti í efnahagslífinu strax í byrjun síðasta árs, eins og ég var ekki feimin að tala um, og útlit fyrir lítinn sem engan hagvöxt, aukið atvinnuleysi og atvinnuvegafjárfesting að skreppa saman. Mér þótti þá strax einsýnt að Fjármálaeftirlit Seðlabankans ætti að lækka sveiflujöfnunaraukann ofan á eiginfjárkröfur bankanna, sem hefði aukið svigrúm þeirra til að auka útlán til atvinnulífsins, en það tók lengri tíma en ástæða var til, að mínu mati.

Þegar kórónuveiran fer að breiðast út, sem ógnaði ekki aðeins lífi og heilsu fólks heldur lamaði einnig allt hagkerfið, var fljótlega ljóst að við stæðum frammi fyrir einni verstu efnahagskreppu lýðveldissögunnar. Sveiflujöfnunaraukinn var þá eðlilega afnuminn – úr 2 prósentum í núll prósent – og vextir lækkaðir mikið. Það hefur tekist ágætlega til við miðlunarferlið, einkum varðandi heimilin, og núna þegar áætlun í lánamálum ríkissjóðs liggur fyrir má segja að við förum inn í þetta ár með skýrari línur um hvers er að vænta heldur en fyrir um ári síðan.

Yfirlýsingar Seðlabankans varðandi magnbundna íhlutun, þar sem markmiðið er að tryggja að lánsfjárþörf ríkissjóðs þrýsti ekki upp langtímavöxtum á markaði, hafa hins vegar kannski ekki ávallt verið í samræmi við aðgerðir hans,“ útskýrir Lilja, en frá því að bankinn boðaði kaup á ríkisbréfum í mars í fyrra hefur hann aðeins keypt fyrir um 9 milljarða.

Hún undirstrikar að mikilvægt sé að bankinn horfi ávallt til verðbólguvæntinga í öllum aðgerðum sínum. „Það er forsenda þess að við getum viðhaldið traustum grunni að baki peningastefnunni. Við skulum heldur ekki gleyma því, núna þegar Seðlabankinn er farinn að grípa til óhefðbundnari aðgerða við framkvæmd peningastefnunnar eins og með magnbundna íhlutun, að við getum ekki gengið jafn langt í þeim efnum eins og við sjáum til dæmis í Bandaríkjunum.“

Lilja leggur áherslu á að þegar hagkerfið kemst á beinu brautina á ný og hagvöxturinn fer að taka hratt við sér, þurfi stjórnvöld að vera með skýra sýn og reiðubúin að grípa til aðgerða til að tryggja stöðugleika.

Ég er í engum vafa um að ríkið eigi að fara í stóra skuldabréfaútgáfu erlendis og ég hef verið þeirrar skoðunar að það eigi að gerast fyrr frekar en síðar.

„Ég fullyrði að stóra áskorunin í hagstjórn hins opinbera, ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans, er ekki núna, heldur verður hún eftir um tólf til átján mánuði. Þar verðum við að horfa til framtíðar og átta okkur á því hver eru störf framtíðarinnar. Gert er ráð fyrir því að sjálfvirknivæðing sé að aukast enn hraðar með COVID-19 og talað um ,,tvöfalda röskun“ og að um 85 milljónir starfa fari úr ákveðnum greinum í aðrar. Gervigreindin verður ráðandi afl og sú færni sem verður mest eftirsóknarverð er gagnrýnin hugsun, sköpun og sveigjanleiki.“


Þurfum fleiri fjárfestingakosti


Með vaxtalækkunum Seðlabankans standa meðal annars heimilin frammi fyrir þeirri nýju áskorun að þurfa að sækja í áhættusamari eignir til að fá ávöxtun umfram verðbólgu.

„Við eigum að taka varfærin en ákveðin skref í þá veru að fólk fari að taka ákvarðanir sjálft um sparnað sinn og verði um leið meiri þátttakendur þegar kemur að fjárfestingu og uppbyggingu í atvinnulífinu. Þessi miðlun sparnaðar, sem hefur haldist mjög hár eftir bankahrunið, og fjárfestingar, á eftir að reynast mjög stór þáttur í því hvernig við munum styðja við hagvöxt á Íslandi í framtíðinni,“ segir Lilja, og bætir við:

„Sú mikla hækkun sem er að eiga sér stað á fasteignamarkaði, er merki um mjög fábreyttan eignamarkað hér á landi sem myndar óþarfa þrýsting á vísitöluneyslu verðs. Það er þjóðþrifamál að koma sparnaði inn í arðbær verkefni sem efla samfélagið. Á Íslandi eru neikvæðir raunvextir og því verða að vera til langtímafjárfestingakostir fyrir fólkið sem það hefur trú á.“

Sérðu þá til dæmis fyrir þér að almenningi verði gefið meira frjálsræði í því hvernig hann beinir séreignarsparnaði sínum?

„Alveg tvímælalaust. Ég er ekki í nokkrum vafa um að slíkt skref yrði til bóta og væri til þess fallið að skapa meiri dýnamík og skoðanaskipti á markaði. Við viljum sjá meiri áhættudreifingu í kerfinu og að fjármagnið leiti í fjölbreyttar fjárfestingar í atvinnulífinu, meðal annars í nýsköpun, sem skapa gjaldeyristekjur og tryggja þau lífskjör sem við viljum búa við.“

Til stendur að selja allt að 35 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka síðar á árinu og segir Lilja að það sé allir í stjórnarsamstarfinu sammála um að ríkið eigi ekki að vera eigandi að tveimur þriðju hlutum bankakerfisins
Fréttablaðið/Ernir


Allt annað bankakerfi í dag


Bankakerfið hefur staðið sterkt í gegnum þessar efnahagshremmingar. Vanskilin einskorðast að mestu við fyrirtæki í ferðaþjónustu og eiginfjárhlutföll eru með því hæsta sem þekkist í Evrópu. Kemur þér þetta á óvart?

„Nei, alls ekki. Í fyrsta lagi þá var ég þeirrar skoðunar frá upphafi að þetta yrði ekki hefðbundin efnahagskreppa, heldur myndu ákveðnir geirar – meðal annars ferðaþjónustan – verða fyrir miklu áfalli á meðan aðrir, eins og verslunin, ættu auðveldlega eftir að geta staðið af sér þessa tímabundnu erfiðleika. Þess vegna hef ég verið talsmaður sértækra úrræða í þessari kreppu, þar sem við komum til móts við það fólk og fyrirtæki sem eru að upplifa algjört tekjufall, vegna þess að hún leggst ekki jafnt yfir alla.

Þegar við ræðum um bankakerfið þá er mikilvægt að hafa í huga að það er allt annað í dag heldur en til dæmis árið 2006. Allt regluverkið og eftirlitið með starfsemi banka hefur tekið stakkaskiptum og þá var ég mikill talsmaður þess að sameina Fjármálaeftirlitið og Seðlabankann. Reynslan hefur sýnt okkur að Seðlabankinn, sem er sú stofnun sem er lánveitandi til þrautavara, þarf að hafa heildarsýn yfir áhættuþætti fjármálakerfisins og hafa upplýsingar um lánabækur bankanna.“

Það mælist samt enn mikið vantraust á meðal almennings í garð bankakerfisins, sem margir nefna sem ástæðu fyrir því að ekki sé tímabært að hefja sölu á hlutum ríkisins í bönkum. Hefur ykkur stjórnmálamönnum þá mistekist að útskýra fyrir fólki hvað hefur breyst og af hverju það skiptir máli?

„Íslandsbanki var í eigu erlendra kröfuhafa fyrir losun fjármagnshafta. Gerð var krafa um það að þjóðin eignaðist bankann í stöðugleikasamningunum til að tryggja fjármála- og gengisstöðuleika við losun hafta. Eins og þá, munu stjórnvöld leggja höfuðáherslu á hagsmuni þjóðarinnar og stöðu ríkissjóðs. Hins vegar þarf enn að vinna í trausti og tryggja að framkvæmdin sé opin og gagnsæ, eins og Bankasýslan leggur til. Vandinn er sá að öll umræða um fjármálakerfið myndar ákveðin hughrif hjá stórum hópi fólks – sem ég skil mæta vel. Ég segi samt að við verðum að halda áfram; tökum varfærin skref, gerum betur og beitum þekkingu okkar og staðreyndum á viðfangsefnið.

Besta aðhaldið kemur frá fólkinu í landinu ber traust til bankans og hvernig staðið verður að söluferlinu, þá hef ég trú á að vel muni takast til.

Það þýðir samt ekki að við eigum ekki halda vöku okkur – fjármálafyrirtæki gegna lykilhlutverki í öllum hagkerfum heimsins og það getur haft alvarlegar, kerfislegar afleiðingar ef þau lenda í erfiðleikum. Við eigum þess vegna að vakta gríðarlega vel allar þessar helstu þjóðhagsstærðir sem skipta lítil, opin hagkerfi mestu máli, einkum núna eftir þessar miklu stuðningsaðgerðir sem stjórnvöld hafa gripið til vegna kórónukreppunnar.“


Samstaða um að selja


Það stendur til að hefja síðar á árinu sölu á allt að 35% hlut ríkisins í Íslandsbanka í opnu hlutafjárútboði og skráningu á markað. Hvernig líst þér á þessi áform?

„Við fórum mjög vel yfir þessi mál strax í upphafi stjórnarsamstarfsins þar sem var samstaða um það að draga ætti úr umfangsmiklu eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Ég legg höfuðáherslu á að við erum að gera þetta í opnu og gegnsæju ferli þar sem til stendur að skrá bankann í Kauphöllina. Það eru allir í þessu stjórnarsamstarfi sammála um að ríkið eigi ekki að vera eigandi að tveimur þriðju hlutum bankakerfisins. Við erum þess vegna núna að leita leiða til að byrja að vinda ofan af því.“

Sumir hafa gagnrýnt að verið sé að selja banka í miðjum heimsfaraldri. Er þetta heppileg tímasetning?

„Ákvörðun um að láta reyna á sölu um þessar mundir kemur í kjölfar mikillar undirbúningsvinnu sem hefur staðið yfir um nokkurt skeið, meðal annars með útgáfu hvítbókar um framtíðarskipan fjármálakerfisins og uppfærðri eigendastefnu ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki. Þá myndi ég segja að þær aðstæður sem við erum núna að sjá á fjármálamörkuðum, sem einkennast af lágum vöxtum og takmörkuðum fjárfestingakostum, ættu að ýta verulega undir áhuga margra á að taka þátt, lífeyrissjóða, fjárfesta og eins almennings í landinu, sem er farinn að gera sig á ný gildandi á hlutabréfamarkaði.

Besta aðhaldið kemur frá fólkinu í landinu,“ segir Lilja, og ef það „ber traust til bankans og hvernig staðið verður að söluferlinu, þá hef ég trú á að vel muni takast til.“

"Ég tel að við verðum eitt af þeim ríkjum sem verður fyrst að klára bólusetningu fyrir meginþorra þjóðarinnar, einkum vegna þeirra sterku innviða sem við búum við,“ segir Lilja.
Fréttablaðið/Anton Brink

Verðum á góðum stað innan fárra mánaða


„Aðalatriðið er að við náum að bólusetja alla þá sem eru í framlínustörfum, áhættuhópum og 70 ára og eldri á næstu vikum,“ segir Lilja, þegar hún er spurð hvort ríkisstjórnin hafi ekki gert afdrifarík mistök með því að binda trúss sitt alfarið við ESB við samninga um kaup á bóluefni.

„Það ætti að marka þáttaskil í baráttunni við faraldurinn, með því að draga verulega úr innlögnum á sjúkrahús og þeirri hættu að álag skapist að nýju á heilbrigðiskerfið, og samfélagið færist nær því að komast í eðlilegt horf á ný.“

Það er talað um að hver dagur í þessu kófi kosti þjóðarbúið um milljarð króna. Það mun því reynast okkur dýrkeypt ef þetta er að dragast mögulega að óþörfu á langinn, ekki satt?

„Ég sagði strax í upphafi þessa faraldurs að ferðaþjónustan, og þá um leið hagkerfið, myndi ekki ná sér á strik fyrr en með tilkomu bóluefnis og að við þyrftum því að reiða okkur á vísindin að koma okkur út úr þessari kreppu. Það hefur allt saman gengið eftir og ég tel að við verðum eitt af þeim ríkjum sem verður fyrst að klára bólusetningu fyrir meginþorra þjóðarinnar, einkum vegna þeirra sterku innviða sem við búum við.“

Bæði heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra hafa fullvissað okkur um það að bólusetning muni ganga hér hratt og örugglega fyrir sig og að við verðum komin á góðan stað hvað það varðar innan mjög fárra mánaða.

En hefði ekki mátt vinna samhliða að því að reyna ná samningum sjálfstætt við Pfizer og fleiri lyfjaframleiðendur strax í haust þegar lá nokkuð ljóst fyrir hvaða bóluefni kæmu fyrst á markaðinn?

Þessir samningar eru á ábyrgð heilbrigðisráðherra. Frá fyrsta degi hef ég lagt ofuráherslu á þetta mál sem ráðherra innan ríkisstjórnarinnar og ítrekað að bólusetning sé eina leiðin fram á við. Bæði heilbrigðisráðherra og forsætisráðherra hafa fullvissað okkur um það að bólusetning muni ganga hér hratt og örugglega fyrir sig og að við verðum komin á góðan stað hvað það varðar innan mjög fárra mánaða. Ég tel að það muni ganga upp.“

Spurð hvort ferðaþjónustan geti þá risið upp á nýjan leik í sumar segist Lilja hafa trú á því en að það þurfi að sækja þau tækifæri sem gefast við þessar aðstæður.

„Við þurfum þá meðal annars að líta til þess,“ útskýrir hún, „að það hafa mjög margir fengið COVID-19 og eru því með mótefni fyrir veirunni. Þessi hópur, ásamt þeim sem verður bólusettur á komandi vikum og mánuðum, getur þá ferðast á milli landa og ég er í engum vafa um að það verði eftirsótt að koma til Íslands. Það er fullt af fólki í stórborgum beggja vegna Atlantshafsins sem hefur verið lokað heima hjá sér um langt skeið, hvorki komist til vinnu né skóla, og við eigum að sækja á þennan markað. Allir innviðirnir eru hér fyrir hendi eftir miklar fjárfestingar í ferðaþjónustunni undanfarin ár og við getum þess vegna tekið mun hraðar við okkur heldur en margt fólk kannski áttar sig á.“

"Ég hef haft unun af því hvernig Janet Yellen, fyrrverandi seðlabankastjóri og nú fjármálaráðherra Bandaríkjanna, vill auka jöfnuð í bandarísku samfélagi, þar sem það auki velsæld. Flott kona með hjartað á réttum stað,“ segir Lilja.

Bandaríski seðlabankinn að styðja við velferðarsamfélagið


„Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með aðgerðum seðlabankans í Bandaríkjunum með kaupum á skuldabréfum fyrirtækja, jafnvel í ruslflokki, fylkja og borga fyrir feykilegar upphæðir í því skyni að tryggja aðgengi þeirra að lánsfjármagni á meðan á þessari kreppu stendur,“ segir Lilja, þegar hún ræðir um ólíkar aðgerðir helstu seðlabanka heimsins í kóróna­kreppunni.

„Þetta eru mjög félagslega sinnaðar aðgerðir, sem kemur mér ekki á óvart, enda vitum við að Bandaríkin eru með mun veikara atvinnuleysistryggingakerfi og ekki með þessa sjálfvirku sveiflujafnara eins og við þekkjum hér á landi. Peningamálayfirvöld eru því með þessu að taka að sér það hlutverk að styðja við velferðarsamfélagið með slíkum fjárhagsinnspýtingum við þessar aðstæður.

Bandaríski seðlabankinn er afar öflugur og leiðandi í seðlabankaheiminum. Hann hefur haft sterkt forystufólk, nefni ég sérstaklega Janet Yellen fyrrverandi seðlabankastjóra og fjármálaráðherra. Fyrsta konan til að gegna þessum hlutverkum í sögu Bandaríkjanna. Ég hef haft unun af því hvernig hún vill auka jöfnuð í bandarísku samfélagi, þar sem það auki velsæld. Flott kona með hjartað á réttum stað.“