Um 70 prósent þeirra ráðninga sem ráðningarstofan Geko hefur komið að frá marsmánuði eru konur og 30 prósent eru erlendir sérfræðingar. Þetta segir Kathryn Gunnarsson, stofnandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem er sérhæft í að ráða starfsfólk sem er sérhæft á sviði vísinda, tækni, verkfræði og lista (STEAM; Science, Technology, Engineering, Arts, Math­ematics).

Geko var stofnuð í sömu viku og fjöldatakmörkunum var komið á í mars til að stemma stigu við COVID-19. Kathryn segir að heimsfaraldurinn hafi ekki staðið í vegi fyrir vexti fyrirtækisins. „Við gerðum ekki ráð fyrir því að ráða aðra starfsmenn fyrr en næsta vor en við höfum þegar ráðið tvo.

Íslensk fyrirtæki hafa staðið sig vel í að bregðast við breyttum aðstæðum og þess vegna vinnur fólk mikið heima hjá sér. Til að slíkt gangi vel þarf að huga vel að upplifun starfsmanna. Við önnumst ekki einungis ráðningar heldur veitum ráðgjöf sem snýr að upplifun starfsmanna. Hún skiptir sköpum þegar unnið er heima og þar leggjum við lið. Fyrirtæki eru að setja starfsfólk sitt í fyrsta sæti.“

Mörg nýsköpunarfyrirtæki í örum vexti

Kathryn segir að það hafi verið í nógu að snúast við að ráða fólk hjá tæknifyrirtækjum. Mörg nýsköpunarfyrirtæki séu í örum vexti. „Það eru víða mikil tækifæri. Við höfum aðstoðað fyrirtæki eins og Lucinity, CCP, Controlant og Aware Go. Við aðstoðuðum Aware Go, sem sinnir fræðslu um netöryggi, við að ráða fjórar konur og við það jókst fjölbreytnin í teyminu til muna.“

Kathryn segir að listir og menning séu stór hluti af hagkerfinu hérlendis og því hafi hún haft áhuga á að vinna jafnframt á því sviði.
Mynd/Lára Björg Gunnarsdóttir.

Kathryn, sem á íslenskan eiginmann, flutti frá London til Íslands árið 2016. Hún hafði reynslu af því að starfa alþjóðlega við mannauðsmál og stjórnun. Hún réð sig til ráðningarstofu en langaði að vinna meira í mannauðsmálum. „Þetta snýst ekki bara um að ráða starfsfólk heldur líka að valdefla það í starfi.“

Tveir Íslendingar í hluthafahópnum

Hún stofnaði Geko ásamt Erlendi Þór Gunnarssyni, lögmanni á OPUS og Grími Axelssyni hagfræðingi. „Þeir eru hluthafar en starfa ekki hjá Geko heldur eru mér innan handar sem ráðgjafar. Mér sem innflytjanda þótti mikilvægt að hafa tvo Íslendinga með mér í liði til að aðstoða mig við að kynnast ólíku fólki á Íslandi. Ég vildi ekki standa að uppbyggingunni ein,“ segir Katrhyn.

Aðspurð hvers vegna hún valdi sína syllu, að horfa til starfsfólks í tækni og listum, segist Kathryn lengi hafa haft áhuga á nýsköpun og tækni. Sér í lagi að fá fleiri konur til að vinna á þessu sviði.

„Karlmaður sækir um starf jafnvel þótt hann uppfylli einungis 20 prósent af kröfunum en kona sækir ekki um nema hún uppfylli 90 prósent af kröfunum.“

„Karlmaður sækir um starf jafnvel þótt hann uppfylli einungis 20 prósent af kröfunum en kona sækir ekki um nema hún uppfylli 90 prósent af kröfunum. Konur geta leitað til okkar til að öðlast sjálfstraust til að sækja um störf og semja um kjör,“ segir Kathryn.

Þá nefnir Kathryn að listir og menning sé stór hluti af hagkerfinu hérlendis og því hafi hún haft áhuga á að vinna jafnframt á því sviði.

Eins og hraðstefnumót

Hún segir að mannaráðningar minni á hraðstefnumót. „Þetta snýst um að vera á réttum stað, á réttum tíma. Það þarf ýmislegt að falla saman til að um sé að ræða réttan kandídat fyrir rétt fyrirtæki,“ segir Kathryn.