Kolbrún Hrund Víðisdóttir, fjármálastjóri Svar tækni og fyrrverandi framkvæmdastjóri 101 hótels, ólst upp í Kaupmannahöfn og því mætti segja að hún sé hálfur Dani.

Hver eru þín helstu áhugamál?

Bókalestur, nám og það að stúdera heimsmálin. Ég sinni fjölskyldunni eins og kostur er og það eru oft mínar skemmtilegustu stundir. Ég er heppin líka að því leytinu til að ég á góða vini og legg mikla áherslu á að njóta lífsins með þeim í núinu.

Hvernig er morgunrútínan þín?

Ég er ekkert sérlega málglöð á morgnana – vægast sagt, segir maðurinn minn. Rútínan er sturta og svo þrír kaffibollar og þá er ég til í dagsins dans. Er frekar mikill nátthrafn þegar ég kemst upp með það.

Hvaða bók hefur haft mest áhrif á þig?

Það er engin ein bók og ég er alltaf að lesa margar í einu, til dæmis núna eru það Sextíu kíló af kjaftshöggum eftir Hallgrím Helgason, Sprakkar eftir Elizu Reid og Mið-Austurlönd eftir Magnús Þorkel Bernharðsson.

Hver hafa verið mest krefjandi verkefnin á undanförnum misserum?

Stærsta og mest krefjandi verkefnið er fyrirtækið okkar, Svar tækni. Það eru búnar að vera miklar umbreytingar hjá okkur og viðskiptavinum okkar undanfarið við að innleiða starfrænar umbreytingar. Þetta eru virkilega skemmtilegir tímar og spennandi að taka þátt í þessum umbreytingum sem eru að eiga sér stað þessi misserin.

Hver eru helstu verkefnin fram undan?

Fyrir utan að fara í stutt langþráð frí í febrúar þá er það að halda áfram með þessar innleiðingar og breytingastjórnun fyrir viðskiptavini okkar. Við erum svo heppin að hafa frábært og samheldið starfsfólk sem er með okkur á þessu ferðalagi og við tökumst saman á við nýja tíma. Þess má einnig geta að í stjórnunarteyminu hjá okkur í Svar tækni erum við fjórar konur og tveir karlar, segi ég sem fyrrverandi varaformaður FKA, og er mjög stolt af því.

Hver er þín uppáhaldsborg?

Ætli það sé ekki Kaupmannahöfn en þar ólst ég upp og mætti segja að ég sé hálfur Dani. Þegar fýkur í mig þá hrökkva víst miður falleg orð á dönsku frá mér, segir betri helmingurinn. Ég hef líka rekið fyrirtæki í Danmörku og erum við fjölskyldan alltaf þar með annan fótinn þegar kostur er.

Helstu drættir

Nám:

Ég hef farið í gegnum svo margt á lífsleiðinni að mér líður stundum eins og ég sé 100 ára í sálinni. Háskólanám í heimspeki og viðskiptafræði og svo hef ég líka menntað mig í góðum stjórnarháttum. Ég er alltaf að læra eitthvað nýtt og ætli ég verði ekki í skóla alla ævi þar sem að ég hef mjög gaman af námi.

Störf:

Mitt aðalstarf í dag er að ég rek Svar tækni með manninum mínum en svo er ég líka í fjárfestingum og ráðgjafarvinnu. Ég rek svo fasteigna- og byggingarfélag ásamt þremur öflugum konum.

Fjölskylduhagir:

Ég á yndislega fjölskyldu. Bestu mömmu og pabba í heimi, þrjú börn, þrjú tengdabörn, systur, mág og þrjú systkinabörn. Svo er ég orðin svo virðuleg að vera með fjögur barnabörn sem eru gullmolar okkar allra. Ekki má gleyma lífsförunaut mínum Rúnari Sigurðssyni og hundinum okkar Skugga.