Tveir stjórnarmenn í VÍS, þau Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, sem seldi allan hlut sinn í tryggingafélaginu í nóvember, og Gestur Breiðfjörð Gestsson, einn eigenda fjárfestingafélagsins Óskabeins, gefa ekki kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn VÍS á komandi aðalfundi. Þá gæti tilnefningarnefnd félagsins, sem mun skila skýrslu sinni í næstu viku, lagt til frekari breytingar á stjórn VÍS, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Á meðal þeirra sem sækjast nú eftir því að komast í stjórn VÍS er Auður Björk Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri fjártæknifélagsins Two Birds og áður framkvæmdastjóri þjónustusviðs VÍS fram til ársins 2018, og Guðný Hansdóttir, en hún var framkvæmdastjóri mannauðssviðs Innness á árunum 2014 og 2018 og þar áður mannauðsstjóri Skeljungs. Þá leitast Benedikt Ólafsson, sem lét af störfum sem framkvæmdastjóri fjármálasviðs Skeljungs undir lok síðasta árs, eftir því að fara í stjórn tryggingafélagsins en hann sat einnig í stjórn Skeljungs á árunum 2013 til 2016 og var áður yfir sérhæfðum fjárfestingum hjá sjóðastýringarfélaginu Stefni.

Samkvæmt heimildum Markaðarins sækir Auður Björk meðal annars stuðning sinn til Bjarna Ármannssonar, fjárfestis og forstjóra Iceland Seafood, en hann kom fyrst inn í hluthafahóp VÍS um miðjan janúar á þessu ári og fer núna með rúmlega þriggja prósenta hlut í félaginu. Guðný nýtur hins vegar stuðnings Óskabeins en félagið er í dag stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi VÍS með samanlagt um 4,7 prósenta eignarhlut, sem er að hluta í gegnum framvirka samninga hjá Arion banka, en hann er metinn í dag á tæplega 1.100 milljónir króna.

Frestur til að skila framboðum til tilnefningarnefndar VÍS rann út í lok síðasta mánaðar. Samkvæmt heimildum Markaðarins bárust umsóknir um framboð, fyrir utan þá stjórnarmenn sem hafa áhuga á að sitja áfram, frá hátt í tuttugu manns. Auk Svanhildar og Gests er stjórn VÍS í dag skipuð þeim Valdimar Svavarssyni, sem er stjórnarformaður, Vilhjálmi Egilssyni og Mörtu Guðrúnu Blöndal en þau þrjú síðastnefndu sækjast öll eftir áframhaldandi setu í stjórninni. Vilhjálmur, sem er fráfarandi rektor Háskólans á Bifröst, og Marta, sem yfirlögfræðingur ORF líftækni, komu fyrst inn í stjórn VÍS í desember 2018.

Miklar breytingar hafa orðið á hluthafahópi VÍS á undanförnum mánuðum. Félagið K2B fjárfestingar, sem er í eigu Svanhildar, seldi allan 7,25 prósenta hlut sinn í félaginu í nóvember síðastliðnum fyrir 1.550 milljónir. Kaupendur voru LSR, sem keypti meginþorra bréfanna, auk annarra lífeyrissjóða. Fjárfestingarfélagið var fyrir viðskiptin þriðji stærsti hluthafi VÍS.

Þá seldi breski vogunarsjóðurinn Lansdowne sömuleiðis allan 7,5 prósenta hlut sinn í VÍS á fyrstu vikum þessa árs en sjóðurinn kom fyrst inn í eigendahóp félagsins í árslok 2017. Hlutabréfasjóðir Stefnis, sem áttu um fimm prósenta hlut í ársbyrjun, hafa jafnframt selt öll sín bréf í tryggingafélaginu á árinu.

Auk Bjarna þá bættist einnig Sigurður Bollason, fjárfestir og einn af stærstu hluthöfum Skeljungs og Kaldalóns, í hluthafahóp VÍS undir lok janúar þegar félagið RES II, sem er í eigu Sigurðar og eiginkonu hans, Nönnu Bjarkar Ásgrímsdóttur, keypti um 1,3 prósenta hlut í félaginu. Sigurður var fyrir fáeinum árum einn stærsti hluthafi VÍS en um mitt árið 2017 seldi félagið Grandier, sem var í eigu Sigurðar og Don McCarthy, fyrrverandi stjórnarformanns House of Fraser, allan átta prósenta hlut sinn í félaginu.

Stærstu hluthafar VÍS eru LSR, Lífeyrissjóður verslunarmanna, breski sjóðurinn Miton og Frjálsi. Sé litið til tuttugu stærstu hluthafa félagsins nemur samanlagður eignarhlutur lífeyrissjóða um 40 prósent.

Markaðsvirði VÍS nemur 23,5 milljörðum og hefur hlutabréfaverð félagsins hækkað um 11 prósent frá áramótum.