Hjúkrunarfræðingarnir Andrea Ýr Jónsdóttir og Stefanía Ösp Guðmundsdóttir stofnuðu fyrirtækið Heilsulausnir árið 2019. Fyrirtækið sérhæfir sig í forvarnarfræðslu en býður einnig upp á ýmiskonar þjónustu. „Fræðslan sem við bjóðum upp á er af ýmsum toga. Við höfum mestmegnis verið að fara í grunnskóla og framhaldsskóla með ýmiskonar fornvarnarfræðslu á borð við vímuefnafræðslu, kynfræðslu, fræðslu um svefn, skjánotkun og því um líkt. Við byrjuðum með forvarnafræðslu þegar við vorum í hjúkrunarfræðinni árið 2011 og starfsemin hefur síðan bara vaxið út frá því,“ segir Andrea og nefnir auk þess að fyrirtækið sinni jafnframt öðrum verkefnum samhliða fræðslunni.

„Við erum einnig með ýmis konar öðruvísi starfsemi eins og til að mynda heilsufarsmælingar í fyrirtækjum og innflúensubólusetningar fyrir fyrirtæki og einstaklinga.“ Aðspurð um ástæður þess að þær hafi ákveðið að segja skilið við Landsspítalann og hafið eigin rekstur segir Andrea að þær hafi viljað standa á eigin fótum.

„Við ákváðum að fara út í eigin rekstur í raun bara til að sjá hvort við gætum það. Við vildum einfaldlega standa á eigin fótum því sem hjúkrunarfræðingar þá erum við oft á tíðum að fylgja fyrirmælum annarra og alls konar reglum og skipulagi sem einhver annar ákveður. Við sinnum ennþá hjúkrun að einhverju leyti meðfram rekstrinum. Ég starfa á heilsugæslu og Stefanía hjá velferðarsviði Reykjavíkurborgar.“

Andrea bætir við að meginmarkmið Heilsulausna sé að bjóða upp á fagmannlega fræðslu. „Við búum yfir góðri menntun og reynslu til að búa til góðar fræðslur,“ segir hún og bætir við að skólastjórnendur hafi kallað eftir meiri fagmannleika í forvarnarfræðslum í skólum. „Við heyrðum af því að það væru oft að koma inn í skólana aðilar með fræðslur sem höfðu litla reynslu og ekki með tilskilin réttindi. Þannig þá sáum við tækifæri í því að þróa og bjóða upp á fagmannlega fræðslu.“

Andrea bætir við að fyrirtækið hafi fengið gífurlega góðar viðtökur. „Síðan við stofnuðum fyrirtækið höfum við fengið virkilega góðar viðtökur. Þó svo a COVID-19 faraldurinn hafi sett strik í reikninginn og við þurftum a gera ýmsar breytingar á fyrirkomulagi fræðslunnar í tengslum við það þá gekk okkur ótrúleg vel. Við erum gífurlega hissa á því hversu vel gekk að bóka fræðslur þrátt fyrir allt.“

Hún segir jafnframt að í tengslum við fyrirtækjareksturinn hafi þær áveðið að stofna netverslun. „Þegar við störfuðum á Landsspítalanum þá þótti okkur vanta meira úrval af allskyns vörum. Við höfum verið í þessari netverslun okkar að bjóða upp á allskonar aukahluti sem hjúkrunarfræðingar, læknar og fleiri stéttir notast við í störfum sínum. Allar vörurnar má skoða inn á vefsíðu okkar heilsulausnir.is. Við höfum fengið góð viðbrögð við þessu framtaki okkar og erum bara rétt að byrja.“