Þetta kom fram á kynningarfundi Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar í dag. Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, ræddi um sókn í uppbyggingu hagkvæmra leiguíbúða og úthlutun stofnframlaga fyrir árið 2022.

Leiguíbúðirnar dreifast víða um land og hefur hlutfall íbúða á landsbyggðinni aldrei verið jafn hátt eða 46 prósent. Af þeim 328 íbúðum sem úthlutun ársins nær til stendur til að byggja 279 nýjar íbúðir en kaupa 49 nýjar og eldri íbúðir. Allar verða þær að standast kröfur um hagkvæmni, en með því eru stjórnvöld að skapa hvata fyrir aukið framboð slíkra íbúða.

Ýmsar kröfur eru gerðar til almennra íbúða, þær þurfa að uppfylla skilyrði um hagkvæmni og eru ætlaðar fyrir tekju- og eignalága. Með uppbyggingu slíkra íbúða er stefnt að auknu aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði með áherslu á nýbyggingar og fjölgun íbúða.

„Það er ríkisstjórninni mikið hagsmunamál að stuðla að bættri stöðu á leigumarkaði. Í gegnum stofnframlög hafa nú þegar verið byggðar 1.550 íbúðir og er annað eins í byggingu. Almenna íbúðakerfið hefur sýnt sig sem úrræði þar sem boðið er upp á hagstæða, örugga langtímaleigu sem stuðlar að heilbrigðari leigumarkaði og auknu húsnæðisöryggi.“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.

Á myndinni með ráðherra er Sigrún Helga Kristjánsdóttir, sérfræðingur í stofnframlögum hjá HMS.
Fréttablaðið/Valli

Af þeim ríflega 3.000 íbúðum sem hlotið hafa stofnframlög hafa 1.552 þegar verið teknar í notkun. Þetta eykur framboð á leigumarkaði en á þessu ári hafa 550 íbúðir verið teknar í notkun, það er 40 prósent allra nýrra íbúða sem komið hafa á markað á árinu.

„Stofnframlögin hafa gert okkur kleift að búa til öflugt leigufélag með sífellt fjölgandi leiguíbúðum, þar sem tryggt er aðgengi að öruggu íbúðarhúsnæði til langtímaleigu á hagkvæmu leiguverði. Við höfum fengið úthlutað stofnframlögum til byggingar á 1.126 íbúðum og þar af tekið í notkun 628 íbúðir.“ segir Björn Traustason, framkvæmdastjóri Bjargs íbúðafélags.

Á kynningunni kom fram að stefnt er að stórsókn í uppbyggingu hagkvæmra leiguíbúða á landsbyggðinni en í þessari úthlutun var metfjöldi íbúða á landsbyggðinni eða um 150 íbúðir. Því til viðbótar var nýlega stofnað óhagnaðardrifið leigufélag, Brák, sem er samstarfsverkefni sveitarfélaga á landsbyggðinni um uppbyggingu hagkvæmra leiguíbúða. Töluverðrar uppbyggingar er því að vænta á landsbyggðinni á næstu misserum.