Stofnendur Controlant sýndu þroska þegar fyrirtækið tók að vaxa því þeir eru reiðubúnir til að sleppa tökum á verkefnum og leyfa öðrum að sinna þeim. Þeir sjá að við þurfum fleiri hendur til að halda áfram að vaxa.

Þetta segir Elín María Björnsdóttir, mannauðsstjóri Controlant, í sjónvarpsþættinum Markaðurinn sem sýndur verður klukkan hálfa átta í kvöld á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.

Controlant hefur meðal annars verið í lykilhlutverki við dreifingu á bóluefni gegn COVID-19 fyrir lyfjarisann Pfizer. Fyrirtækið þróaði hugbúnað og vélbúnað til að fylgjast með lyfjum og matvælum í flutningi svo hægt sé að fylgjast með ástandi og staðsetningu þeirra hvar sem er í heiminum.

Elín María segir að fyrirtækið hafi þurft að fjölga starfsmönnum að jafnaði um níu í hverjum mánuði frá því í ársbyrjun 2020. Í dag starfi um 200 manns hjá fyrirtækinu, að langstærstum hluta á Íslandi, en samkvæmt áætlunum verða þeir orðnir um 300 í árslok.

Hún bendir á að við það muni starfsmönnum fjölga um þriðjung. „Við erum að leita að fólki með reynslu,“ segir hún.

Aðspurð hvernig unnið sé að því að halda vinnustaðamenningu Controlant eins og þau vilja hafa hana í örum vexti segir Elín María að manneskjan sé höfð í fyrirrúmi. Í upphafi hafi fyrirtækið verið lítið, boðleiðir stuttar því auðvelt að taka ákvarðanir. Jafnframt ríkti á milli fólks oft byggt á langri reynslu. Teymin þurfi því að taka á móti nýjum starfskörftum af opnum hug.

„Öll samskipti byggja á trausti,“ segir hún og nefnir að lögð sé áhersla á að tengja saman teymin, skýra verksvið þeirra og ábyrgð og gefa fólki svigrúm til að vinna vinnuna. Fyrirtækjamenning Controlant sé á þá vegu að vera opin og ávallt reiðubúin til að læra.