Soffía Sigurgeirsdóttir, almannatengslaráðgjafi, stofnaði nú í byrjun árs nýtt fyrirtæki, Langbrók, þar sem verður lögð áhersla á að vinna með stjórnendum sem séu reiðubúnir að vera ábyrgari gagnvart umhverfinu og samfélaginu. Frá þessu greinir Soffía í tilkynningu á Facebook-síðu sinni.
„Það er gaman að segja frá því að nú í upphafi nýs árs hefst nýr kafli hjá mér,“ segir Soffía.
Hún hefur unnið um árabil sem ráðgjafi fyrir alþjóðleg og innlend fyrirtæki, stofnanir og félagasamtök á sviði samfélagsábyrgðar, breytingastjórnunar og almannatengsla og segir í tilkynningunni að á liðnu ári hafi henni gefist tækifæri til að fara í stefnumótun með sjálfa sig. Í kjölfarið hafi hún ákveðið að stofna fyrirtækið.
„Þessi vegferð kallar á breytingar, aukið gegnsæi, samskipti og nýsköpun sem stuðlar að aukinni verðmætasköpun. Við höfum lært ýmislegt á þessum heimsfaraldri, það er nefnilega hægt að breyta hratt um kúrs. Við erum öll í þessu saman, það er nefnilega engin pláneta B! Við þurfum öll að takast á við brýnar áskoranir er varðar jafnrétti, efnahagsþróun og umhverfi. Fyrirtæki sem gera það vel eru samkeppnishæfari fyrir vikið,“ segir Soffía.
Hún segir að hún muni vinna með ráðgjafafyrirtækinu Empower í jafnréttismálum og að hún líti björtum augum til framtíðar. Nafngiftin kemur frá Hallgerði Langbrók segir Soffía.
Tilkynninguna er hægt að sjá hér að neðan.
Það er gaman að segja frá því að nú í upphafi nýs árs hefst nýr kafli hjá mér. Ég hef unnið sem ráðgjafi um árabil fyrir...
Posted by Soffia Sigurgeirsdottir on Thursday, 7 January 2021