Stofnandi tölvuleiksins Guitar Hero, Charles Huang, ásamt fleirum, lagði OverTune, sem er að þróa tónlistarforrit , til tugi milljóna í sinni fyrstu fjármögnun. Nú vinna stofnendur fyrirtækisins að því að safna um tveimur milljónum Bandaríkjadala, jafnvirði tæplega 250 milljóna króna, í annarri fjármögnunarlotu.

„Sú vinna gengur vel,“ segir Sigurður Ásgeir Árnason, framkvæmdastjóri sprotafyrirtækisins. Hann var í hljómsveitinni Ultra Mega Technobandið Stefán, sem naut vinsælda á sínum tíma, en starfaði síðast sem yfirmaður viðskiptaþróunar hjá Larsen Energy Branding, sem er ráðgjafarfyrirtæki á sviði vörumerkjastjórnunar í orkuiðnaði.

OverTune þróar hugbúnað sem gerir hverjum sem er kleift að skapa tónlist, án bakgrunns í tónlist eða þekkingar á tónsmíðaforritum og leyfir notendum á einfaldan máta að deila tónlist sinni á samfélagsmiðlum eins og TikTok og Insta­gram Reels. „Þetta snýst um að fanga augnablikið hverju sinni,“ segir Sigurður Ásgeir.

Nýr vísisjóður Brunns Ventures, Brunnur vaxtasjóður II, leiddi fyrstu fjármögnunina. Aðrir fjárfestar komu frá Kanada, Noregi og Íslandi, en Huang starfar í Kísildalnum í Bandaríkjunum. Guðjón Már Guðjónsson, stofnandi OZ, er stjórnarformaður OverTune.

„Það að okkur tókst að fá öfluga fjárfesta víða um heim gefur góð fyrirheit um framhaldið fyrir OverTune,“ segir Sigurður Ásgeir.

Aðspurður hvernig það kom til að Huang, sem bjó til feykilega vinsælan tölvuleik á heimsvísu, fjárfesti í OverTune, segir Sigurður Ásgeir að það megi rekja til tengslanets þeirra sem komi að fyrirtækinu. „Teymið hefur starfað í afþreyingariðnaðinum í mörg ár og við njótum góðs af því,“ segir hann

„Við erum að velja réttu fjárfestana um borð um þessar mundir. Allir sem fjárfestu hafa mikla reynslu af afþreyingariðnaði. Á meðal stjórnenda Brunns Ventures er til að mynda einn af stofnendum CCP Games og fyrrverandi stjórnandi hjá alþjóðlega fjölmiðlafyrirtækinu Bertelsmann. Kanadíski fjárfestirinn Nicholas Ponari hefur fjárfest í leikjaiðnaði og Norðmaðurinn Espen Systad hefur veitt keppinaut okkar Voisey ráðgjöf og kennir við háskólann í Bergen,“ segir hann. Snapchat keypti nýlega breska sprotafyrirtækið Voisey sem býður notendum upp á tónlist til að setja yfir myndskeið.

Aðrir íslenskir fjárfestar eru B Capital sem stýrt er af bræðrunum Henrik og Sveini Biering. Þeir fjárfestu meðal annars í fyrra í Vaxa sem rekur eitt af fimm stærstu hátækni-lóðréttum gróðurhúsum í heimi sem er í fjöldaframleiðslu, eins og fram hefur komið í Markaðinum.

„Það að fjárfestar á þessum skala veðji á að OverTune muni umbylta tónlist, eru stórar fréttir fyrir íslenskt atvinnulíf. Við höfum séð ýmis fyrirtæki reyna að bjóða upp á svipaða lausn, þó með annarri nálgun, en þau hafa verið keypt af samfélagsmiðlarisum,“ segir Sigurður Ásgeir.

Hann segir að samfélagsmiðlar sem byggi á hljóði fari ört stækkandi og nefnir meðal annars samfélagsmiðilinn Clubhouse í því samhengi. Í Clubhouse getur fólk talað saman í stafrænum rýmum og aðrir geta hlustað á.

Rekstur OverTune mun byggja á áskriftartekjum. Sigurður Ásgeir segir að notendur muni fá í upphafi ákveðið mengi af hljóðefni en geti svo bætt við það til að mynda hljóðbútum eftir þekkt tónlistarfólk sem og hljóðum sem til að mynda tengjast Eurovison eða EM í knattspyrnu. Þannig geti notendur skapað efni sem passi við stemninguna í þjóðfélaginu hverju sinni.

OverTune samanstendur af sjö manna teymi, þar af þremur forriturum sem eru staðsettir á Íslandi, í Rússlandi og Úkraínu. Aðrir stofnendur en Sigurður Ásgeir eru Jason Daði Guðjónsson hönnunarstjóri, en hann stofnaði á sínum tíma Hip Hop hátíðina og var verkefnastjóri hjá OZ og Pétur Eggerz Pétursson vörustjóri, sem var áður tæknistjóri HN markaðssamskipta, en hann hafði áður stofnað framleiðslufyrirtækið Motive.