Norðmaðurinn Erik G. Braathen vinnur nú að því að stofna nýtt norskt flugfélag. Félagið sér fram á að skapa störf fyrir fjölda Norðmanna í miðju kreppuástandi í flugheiminum.

Stefnt er á að félagið verði komið í loftið fyrir næsta sumar.

Braathen hefur mikla reynslu innan flugbransans en hann var áður fjárfestir og stjórnarmaður í Norwegian og var forstjóri norska flugfélagsins Braathens Safe í tíu ár til ársins 1999, félagið var keypt af SAS árið 2002.

„Við munum nota alla okkar reynslu og sérþekkingu til að byggja upp nýtt, norskt flugfélag sem er aðlagað að efnahagslegum veruleika og þörfum farþega. Við teljum að flugbransinn muni breytast verulega á komandi tímum, hann verður ekkert í líkindum við það sem hann var fyrir kórónuveirufaraldurinn," segir Braathen í samtali við norska ríkisútvarpið NRK.

Ásamt Braathen koma þeir Brede Huser, Thomas Ramdahl, Asgeir Nyseth, Alf Sagen, Bjørn Erik Barman-Jenssen og Tord Meling að stofnun félagsins. Ásamt þeim eru 25 manns í fullri vinnu við að byggja upp nýja fyrirtækið.

Erik G. Braathen stofnandi nýja flugfélagsins.
Ljósmynd/ NICOLAS TOURRENC

Alþjóðleg kreppa í flugbransanum

Norðmennirnir eru staðráðnir í því að tímasetningin til að stofna nýtt flugfélag sé góð þrátt fyrir að flest flugfélög í heiminum berjist í bökkum að halda velli og fjöldi flugfélaga hefur nú þegar farið í þrot það sem af er ári vegna faraldursins. Samkvæmt nýjustu tölum frá norska flugfélaginu Norweigan fækkaði farþegum um 90 prósent milli ára.

Braathen segir að þetta sé rétti tíminn til að stofna nýtt flugfélag.

„Við leigjum nýjar flugvélar á sanngjörnu verði, ráðum bestu starfsmennina og byggjum fullkomlega stafrænt fyrirtæki með lítið flækjustig sem þýðir að kostnaðurinn er lítill og við getum aflað tekna með færri flugvélum."

Flugfélagið mun vera með höfuðstöðvar í Noregi og sér fram á að vera bæði í innanlands- og utanlandsflugi.