Fjárfestingafélagið Eyrir Invest, sem er meðal annars stærsti hluthafi Marels, hefur sett á stofn sérstakt félag til þess að halda utan um og sinna sprotafjárfestingum sínum.

Þórður Magnússon, stjórnarformaður og stærsti hluthafi Eyris Invest, tók við stjórnarformennsku í félaginu Eyrir Ventures í liðnum mánuði en auk hans tóku sæti í stjórninni þau Kristín Guðmundsdóttir, stjórnarmaður í Festi og fyrrverandi forstjóri Skipta, og Magnús Halldórsson, blaðamaður og einn stofnenda Kjarnans. Örn Valdimarsson, sem hefur stýrt sprotafjárfestingum Eyris Invest undanfarin ár, verður í forsvari fyrir félagið.

Á hluthafafundi Eyris Ventures í síðasta mánuði var stjórn félagsins veitt heimild til þess að auka hlutafé þess um allt að tvo milljarða króna að nafnvirði, samkvæmt gögnum sem hafa borist fyrirtækjaskrá, en á fundinum var einnig samþykkt að félagið gæfi út breytanleg skuldabréf að fjárhæð allt að 3,85 milljarðar króna.

Magnús Halldórsson, blaðamaður og einn stofnenda Kjarnans.

Heildareignir Eyris Invest, sem var stofnað árið 2000, námu ríflega 571 milljón evra, jafnvirði um 79 milljarða króna, í lok árs 2018. Langsamlega stærsta eign fjárfestingafélagsins er fjórðungshlutur í Marel en félagið á jafnframt um 46 prósenta hlut í Eyri Sprotum, sem fjárfestir í nýsköpunarfyrirtækjum, og þriðjungshlut í Efni, sem sérhæfir sig í sölu á vörum og þjónustu í gegnum netið og samfélagsmiðla, auk þess sem það hefur fjárfest í ýmsum öðrum sprota- og vaxtarfélögum.

Þórður er stærsti hluthafi Eyris Invest með 21 prósents hlut og sonur hans, Árni Oddur, forstjóri Marels, sá næststærsti með tæplega 18 prósent. Þá fer Landsbankinn með 14 prósent, LSR 12 prósent og Lífeyrissjóður verslunarmanna 11 prósent.