Tekjur Símans jukust um 99 milljónir á fyrsta ársfjórðungi og voru ríflega 6,4 milljarðar króna á meðan rekstrarhagnaður lækkaði um sambærilega fjárhæð og var 2,54 milljarðar. Þetta kemur fram í nýbirtu uppgjöri fyrirtækisins fyrir fyrsta fjórðung ársins, en forstjórinn Orri Hauksson segir afkomuna ásættanlega í kauphallartilkynningu.

Hagnaður eftir fjármagnsliði, skatta og afskriftir jókst mikið milli ára, en má rekja þá þróun til sölu á dótturfélaginu Sensa. Var hagnaður fjórðungsins ríflega 2,8 milljarðar, samanborið við 762 milljónir á fyrsta fjórðungi ársins 2020.

„Árið fer ágætlega af stað og rímar við væntingar okkar um að ná sem mestu út úr efnahag og rekstri ólíkra eininga innan samstæðunnar. Þannig lauk sölu Sensa farsællega með kaupum alþjóðlega upplýsingatæknifyrirtækisins Crayon á félaginu auk þess sem lykilverkefni á sviði farsíma- og netrekstrar Símans voru flutt til Mílu. Samstæðan er nú fjármögnuð með nýjum hætti, í því augnamiði að hámarka afrakstur af breyttri verkaskiptingu innan samstæðu og til að stilla efnahag upp í samræmi við þarfir viðkomandi rekstrareininga. Í byrjun apríl greiddi félagið verulega fjármuni til hluthafa með niðurfærslu hlutafjár og arðgreiðslu,“ er haft eftir Orra Haukssyni.

Reikitekjur Símans drógust saman milli ára, en eflaust má rekja það til minni ferðalaga til og frá Íslandi. Aukin sala á búnaði jók hins vegar heildartekjur samstæðu Símans. „[A]ð auki kemur nú til góða að ráðist var í varanlegar kostnaðarlækkanir um vorið 2020 sem koma að fullu fram á þessu ári,“ segir í tilkynningu Símans.

Ráða Lazard og Íslandsbanka

Fram kemur í tilkynningu til kauphallar að Síminn hafi nú ráðið fjárfestingabankann Lazard auk Íslandsbanka til að ráðleggja fyrirtækinu um stefnumótun er varðar dótturfélagið Mílu, sem annas uppbyggingu og rekstur ljósleiðaranets um allt land.

Verður ekki annað séð í tilkynningunni en að stjórnendur Símans hyggist nú undirbúa sölu á Mílu úr samstæðu Símans:

„Mikil og ör þróun hefur átt sér stað síðustu misserin á samsetningu fjarskiptafélaga á alþjóðamörkuðum. Innlendir og erlendir fjárfestar sýna þannig aukinn áhuga á sérhæfingu í fjárfestingum, meðal annars með því að innviðaeignir séu aðskildar frá þjónustufélögum í smásölu.

Fjárfestingabankinn Lazard ásamt Íslandsbanka hafa nú verið ráðnir til að ráðleggja um stefnumarkmið og framtíðarmöguleika Mílu. Valkostir er varða framtíðareignarhald á Mílu verða kannaðir með það að augnamiði að hámarka verðmæti eigna Símans fyrir hluthafa og að tryggja að framtíðarþróun innviða samstæðunnar verði hagfelld fyrir íslenskan almenning. Ekki liggur fyrir til hvaða niðurstöðu þetta verkefni mun leiða en nánar verður upplýst um framvindu þess um leið og ástæða er til.“