Seðlabanki Íslands segir að regluverkið um afleiðuviðskipti með íslenska krónu séu í stöðugri endurskoðun, með það að markmiði að greina hvort tilefni sé til að losa frekar um takmarkanir. Þetta kemur fram í svari bankans við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Ragnar Björn Ragnarsson, gjaldeyrismiðlari hjá Arion banka, skrifaði grein í Markaðinn í síðustu viku þar sem hann færði rök fyrir því að Seðlabankinn afnæmi núgildandi takmörkun á gjaldeyrisviðskipti og þar með síðustu leifar fjármagnshaftanna, með því að leyfa stöðutöku í krónunni. Áhrifaríkasta leiðin til að bæta veltu og dýpt markaða væri að fá fleiri aðila að borðinu.

„Verði það gert geta til dæmis fjárfestar sem hafa trú á langtímastöðu hagkerfisins tekið stöðu með krónunni og stuðlað að heilbrigðari verðlagningu með framtíðarvæntingar í huga,“ skrifaði Ragnar.

Ragnar benti á að gjaldeyrisflæði í dag endurspeglaði að litlu leyti skoðanaskipti um grundvallarhagstærðir heldur einkum nauðsynlegt eða kerfisbundið flæði. Veikingin endurspeglar því tæplega ástand þjóðarbúsins, viðskiptajöfnuð eða stöðu ríkissjóðs, heldur nær aðeins tímabundna stöðu ferðaþjónustunnar og gjaldeyrisflæði henni tengt. „Núverandi höft sem hafa þann tilgang að draga úr sveiflum á gjaldeyris- og vaxtamarkaði, hafa í dag líklega þveröfug áhrif.“

Í svari Seðlabankans segir að ein af þeim takmörkunum haftanna sem ekki hafa verið losaðar að fullu séu þær sem felast í afleiðuviðskiptum með krónu, sem eru ekki vegna viðskipta með vöru og þjónustu, eða áhættuvarnar. „Þessar takmarkanir hafa þjónað mikilvægu hlutverki við að varðveita stöðugleika eftir því sem áætlun stjórnvalda um losun og afnám hafta hefur verið fylgt eftir.

Regluverkið er í stöðugri endurskoðun með það að markmiði að greina hvort tilefni sé til að losa enn frekar um þær takmarkanir sem eftir standa með hliðsjón af stöðugleika í gengis- og peningamálum og fjármálastöðugleika.“