Fjárfestingafélagið Stoðir er orðið stærsti hluthafi Kviku banka með 8,28 prósenta hlut. Stoðir, sem eru jafnframt stærstu hluthafinn í TM, komast þannig í forystu í hluthafahópi sameinaðs félags.

Stoðir, sem eru eitt umsvifamesta fjárfestingafélag landsins með um 27 milljarða króna í eigið fé, hafa á undanförnum vikum og mánuðum byggt upp umtalsverða stöðu í Kviku banka í gegnum framvirka samninga eins og greint var frá í Markaðinum á miðvikudaginn en stjórnir tryggingafélagsins, Kviku og Lykils fjármögnunar samþykktu um miðja síðustu viku að sameina félögin.

Samkvæmt því sem kom fram í flöggun til Kauphallarinnar eiga Stoðir 8,28 prósenta hlut í Kviku. Þá kom fram að Stoðir hefði selt um 1,8 prósenta hlut í TM fyrir tæplega 650 milljónir króna. Að óbreyttu munu Stoðir eiga um 9 prósenta hlut í sameinuðu félagi.

„Í ljósi fyrirhugaðs samruna TM hf. og Kviku banka hf. hafa Stoðir hf. dregið til baka umsókn sína um að fara með virkan eignarhlut í TM hf. og hafa því nú selt þann hluta eignarhlutar síns í TM sem var umfram 9,9 prósent, gegn greiðslu með hlutabréfum í Kviku banka,“ sagði í tilkynningunni. Þrátt fyrir að hlutur Stoða í TM hafi minnkað úr 11,66 prósentum niður í 9,9 prósent er félagið enn stærsti hluthafinn.

Langsamlega stærsti hluthafi Stoða er félagið S121, með um 65 prósenta hlut, en það er meðal annars í eigu Jóns Sigurðssonar, stjórnarformanns Stoða, Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs og stjórnarmanns í TM, og Örvars Kjærnested, fjárfestis og stjórnarformanns TM. Auk þess að vera stór fjárfestir í TM og Kviku eru Stoðir með tæplega fimm prósenta hlut í Arion banka og stærsti hluthafinn í Símanum með nærri 15 prósenta hlut.