Fjárfestingafélagið Stoðir, sem hefur verið stærsti hluthafi Kviku frá því undir lok síðasta árs, hefur á innan við tveimur vikum minnkað hlut sinn í bankanum um næstum þriðjung. Þetta kemur fram í frétt Innherja.

Eignarhlutur Stoða í Kviku, samkvæmt heimildum Innherja, nemur nú 6,3 prósentum en var áður 8,3 prósent. Fjárfestingafélagið er þriðji stærsti hluthafi bankans á eftir Lífeyrissjóði verslunarmanna og LSR.

Ætla má að Stoðir, sem eru umsvifamesta fjárfestingafélag landsins með nálægt 50 milljarða í eigið fé og meðal annars stór í hluthafi Símanum og Arion banka, hafi selt hlutabréf sín í Kviku fyrir samanlagt um 3,5 milljarða króna á tímabilinu, segir í fréttinni.

Ákvörðun Stoða um að selja verulegan hluta bréfa sinna í Kviku banka kemur á sama tíma og félagið hefur að undanförnu verið að ráðast í fjárfestingar í nýjum atvinnugreinum. Stoðir keyptu í lok ágúst um 6,2 prósenta eignarhlut Helga Magnússonar, aðaleigenda útgáfufélags Fréttablaðsins, í Bláa lóninu og fjárfestu í Landeldi í síðasta mánuði sem tryggði Stoðum þriðjungshluta í fiskeldisfyrirtækinu.

Hlutabréfaverð Kviku hefur hækkað um 63 prósent á árinu. Markaðsvirði eftirstandandi eignarhlutar Stoða í bankanum nemur í dag um 8,5 milljörðum króna.