Fjárfestingafélagið Stoðir hefur á síðustu vikum minnkað við sig í Arion banka með sölu á ríflega 0,2 prósenta hlut í bankanum, samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa hans.

Stoðir fara nú með 4,73 prósenta hlut í Arion banka, að virði tæplega 4,4 milljarða króna miðað við núverandi hlutabréfaverð, en til samanburðar átti fjárfestingafélagið 4,96 prósenta hlut í bankanum fyrir fáeinum vikum.

Félagið er eftir sem áður langsamlega stærsti innlendi einkafjárfestirinn í hluthafahópi Arion banka og sjötti stærsti hluthafi bankans.

Stoðir eru eitt stærsta fjárfestingafélag landsins með 25 milljarða króna eigið fé í lok síðasta árs. Auk 4,7 prósenta hlutar í Arion banka fer félagið með um 11,7 prósenta hlut í TM og fjórtán prósenta hlut í Símanum.

Þá bætti Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins í gær við sig tíu milljónum hluta í Arion banka fyrir ríflega 500 milljónir króna, eftir því sem fram kom í flöggunartilkynningu sem sjóðurinn sendi Kauphöllinni síðdegis í gær, en í kjölfar kaupanna fer lífeyrissjóðurinn með 5,1 prósents hlut í bankanum.

Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur jafnframt bætt við hlut sinn í Arion banka á síðustu dögum og heldur nú á fimm prósenta hlut í bankanum.

Á sama tíma hefur breski vogunarsjóðurinn Lansdowne Partners haldið áfram að minnka við sig í Arion banka en samkvæmt nýjum lista yfir stærstu hluthafa bankans fer sjóðurinn nú með 2,2 prósenta hlut. Til samanbuðar átti vogunarsjóðurinn 2,9 prósenta hlut í bankanum í lok febrúarmánaðar og 4,3 prósenta hlut í janúarlok.

Gengi hlutabréfa í Arion banka hefur fallið um ríflega fjörutíu prósent undanfarnar fimm vikur og stendur nú í 51 krónu á hlut. Sé litið til síðustu tólf mánaða nemur gengislækkunin um 28 prósentum.