Fjárfestingafélagið Stoðir bættu keyptu hlutabréf í Símanum fyrir tæplega 400 milljónir króna í dag og er eignarhlutur þess nú kominn yfir 10 prósent.

Þetta kemur fram í flöggunartilkynningu sem barst Kauphöllinni en þar segir að eignarhlutur Stoða í fjarskiptafyrirtækinu sé nú kominn upp í 10,86 prósent. Fyrir viðskiptin nam hluturinn 9,95 prósentum.

Stoðir hófu sem kunnugt er að fjárfesta í Símanum í apríl síðastliðnum þegar fjárfestingafélagið eignaðist rúmlega átta prósenta hlut í Símanum.

Stoðir högnuðust um 1.100 milljónir króna á sínu fyrsta ári sem virkt fjárfestingafélag. Samkvæmt ársreikningi Stoða, sem var lagður fyrir aðalfund 20. júní síðastliðinn, námu fjárfestingar á árinu 2018 samtals 5,3 milljörðum og var eigið fé félagsins um 17,5 milljarðar í lok ársins.