Fjárfestingafélagið Stoðir bætti verulega við hlut sinn í Símanum í síðasta mánuði og er í dag orðinn stærsti hluthafi félagsins með tæplega þrettán prósenta hlut. Miðað við gengi bréfa Símans í dag þá er eignarhlutur Stoða, samtals 1.200 milljónir hluta að nafnverði, metinn á um 5,5 milljarða króna.

Samkvæmt nýjum lista yfir tuttugu stærstu hluthafa fjarskiptafyrirtækisins má sjá að Stoðir bættu við sig 280 milljónum hluta í Símanum í ágústmánuði en í lok júlí átti fjárfestingafélagið tæplega tíu prósenta hlut í Símanum. Markaðsvirði Símans er í dag um 42 milljarðar króna.

Stoðir hófu að fjárfesta í Símanum í apríl síðastliðnum þegar fjárfestingafélagið eignaðist rúmlega átta prósenta hlut í fyrirtækinu.

Á sama tíma og Stoðir hafa aukið við eignarhlut sinn þá hafa erlendir sjóðir í hluthafahópnum haldið áfram að minnka enn frekar við hlut sinn í Símanum. Þannig seldu tveir sjóðir í stýringu bandaríska félagsins Eaton Vance, sem hefur verið umsvifamikið í fjárfestingum í skráðum félögum á Íslandi síðustu ár, samanlagt rúmlega tveggja prósenta hlut í Símanum í síðasta mánuði. Nemur hlutur sjóðanna í dag - Global Absolute Return Advantage og Global Macro Portfolio - samtals tæplega fjórum prósentum.

Þá hefur breska sjóðastýringarfélagið Miton Group sömuleiðis selt bréf sín í Símanum en félagið er ekki lengur á meðal tuttugu stærstu hluthafa fjarskiptafyrirtækisins. Í lok júlímánaðar átti Miton rúmlega 1,8 prósenta hlut.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins bætti hins vegar nokkuð við hlut sinn í Símanum í liðnum mánuði þegar A-deild sjóðsins keypti samtals 74 milljónir hluta og nemur eignarhlutur hans í dag um 9,2 prósentum.

Auk eignarhlutar í Símanum er fjárfestingafélagið Stoðir stærsti hluthafi tryggingafélagsins TM og á meðal umsvifamestu eigenda Arion banka með tæplega fimm prósenta hlut.