Stoðir högnuðust um 4.020 milljónir króna á síðasta ári, að því er fram kemur í ársreikningi fjárfestingafélagsins sem sendur var hluthöfum félagsins í síðustu viku. Ávöxtun félagsins á árinu, að teknu tilliti til 3,6 milljarða króna hlutafjárhækkunar í maímánuði, var 20,5 prósent.

Samkvæmt ársreikningi Stoða, sem Markaðurinn hefur undir höndum, námu tekjur félagsins af fjárfestingarverðbréfum liðlega 3,8 milljörðum króna í fyrra en níutíu prósent teknanna komu til vegna skráðra eigna félagsins. Vaxtatekjur voru um 65 milljónir króna á árinu og þá var gengishagnaður félagsins um 344 milljónir króna.

Rekstrarkostnaður Stoða nam tæplega 203 milljónum króna í fyrra, borið saman við 131 milljón króna árið 2018, en þrír starfsmenn störfuðu að meðaltali hjá fjárfestingafélaginu á árinu samanborið við tvo starfsmenn árið áður.

Fjárfestingareignir Stoða voru metnar á samanlagt 22 milljarða króna í bókum félagsins í lok síðasta árs en þær ríflega fjórfölduðust á árinu. Þar af nema skráðar eignir félagsins 17,7 milljörðum króna, eftir því sem fram kemur í stuttri samantekt félagsins um afkomu síðasta árs, og er þar um að ræða fimm prósenta hlut í Arion banka, fjórtán prósenta hlut í Símanum og tíu prósenta hlut í TM. Umræddir eignarhlutir hækkuðu allir í verði á árinu en til marks um það nam ársávöxtun skráðra eigna Stoða 23 prósentum.

Stoðir áttu í lok síðasta árs auk þess óskráðar eignir upp á 1,7 milljarða króna, lán og skuldabréf að virði samanlagt 2,6 milljarðar króna og reiðufé fyrir tæplega 3,2 milljarða króna. Til samanburðar átti félagið reiðufé upp á 12,2 milljarða króna í lok árs 2018.Heildareignir fjárfestingafélagsins voru 25,2 milljarðar króna í lok síðasta árs borið saman við 17,5 milljarða króna í árslok 2018.

Stjórn Stoða leggur til að ekki verði greiddur arður til hluthafa í ár. Hluthafar fjárfestingafélagsins voru 54 í lok síðasta árs samanborið við 42 í byrjun ársins en stærsti hluthafinn er sem fyrr félagið S121 með tæplega 65 prósenta hlut. Það er meðal annars í eigu félaga á vegum Jóns Sigurðssonar, stjórnarformanns Stoða, Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs, og Örvars Kjærnested, fjárfestis og stjórnarformanns TM.

Landsbankinn er næststærsti hluthafi Stoða með rúmlega tólf prósenta hlut og þá fara tveir sjóðir í stýringu Stefnis, dótturfélags Arion banka, með um tíu prósent í félaginu. Stoðir eiga jafnframt um 9,9 prósent af útistandandi hlutafé félagsins.