Fjárfestingafélagið Stoðir er orðið stærsti hluthafi Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) með tæplega tíu prósenta hlut, að því er fram kemur í flöggunartilkynningu sem barst Kauphöllinni fyrr í kvöld, en viðskiptin voru gerð í tengslum við hlutafjárhækkun fjárfestingafélagsins.

Félögin Helgafell, Einir og Riverside Capital greiddu fyrr í dag fyrir ný hlutabréf í eignarhaldsfélaginu S121, sem er stærsti hluthafi Stoða, með öllum bréfum sínum í tryggingafélaginu og í kjölfarið greiddi umrætt eignarhaldsfélag fyrir ný bréf í Stoðum með bréfunum í TM.

Stoðir fara þannig nú með tæplega 67,6 milljónir hluta í tryggingafélaginu - nánar tiltekið 9,97 prósenta hlut - en eignarhluturinn er metinn á um 2,3 milljarða króna miðað við núverandi gengi hlutabréfa í TM.

Fjárfestingafélagið er þannig orðið stærsti hluthafi TM en Gildi - lífeyrissjóður fer með 9,13 prósenta hlut í félaginu og Lífeyrissjóður verslunarmanna 9,02 prósenta hlut, samkvæmt lista yfir stærstu hluthafa félagins.

Samkvæmt flöggunartilkynningum sem bárust Kauphöllinni eftir lokun markaða í dag greiddi Helgafell eignarhaldsfélag, sem er í jafnri eigu Ara Fenger, Bjargar Fenger og Kristínar Vermundsdóttur, fyrir ný bréf í S121 með 35 milljónum hluta í TM, Riverside Capital, sem er í eigu Örvars Kærnested, stjórnarformanns TM og fjárfestis, greiddi fyrir bréfin með 13 milljónum hluta í tryggingafélaginu og loks greiddi Einir, fjárfestingafélag Einars Arnar Ólafssonar, stjórnarmanns í TM og fyrrverandi forstjóra Skeljungs, fyrir hlutabréfin með um 19,6 milljónum hluta í TM.

Í kjölfarið greiddi svo S121 fyrir ný hlutabréf í Stoðum með bréfunum í Tryggingamiðstöðinni en eftir hlutafjárhækkun fjárfestingafélagsins mun S121 eiga 64,6 prósent af útistandandi hlutafé í Stoðum.

Greint var frá því í Markaðinum fyrr í vikunni að Stoðir hefði hug á að auka hlutafé sitt um allt að fjóra milljarða króna til að styrkja enn frekar fjárfestingargetu félagsins. Stoðir, sem er eitt stærsta fjárfestingafélag landsins, hefur á síðustu vikum fjárfest í Arion banka og Símanum fyrir samanlagt um níu milljarða króna.

Sá hópur fjárfesta sem er með tögl og hagldir í Stoðum í gegnum S121 samanstendur meðal annars af félögum tengdum Jóni Sigurðssyni, fyrrverandi forstjóra FL Group og stjórnarmanni í Refresco frá 2009, Einari Erni, Örvari, Magnúsi Ármann, fjárfesti og fyrrverandi stjórnarmanni FL Group, og Þorsteini M. Jónssyni, áður aðaleiganda Vífilfells og fyrrverandi stjórnarmanni í Glitni og FL Group.