Fjárfestingafélagið Stoðir hefur á undanförnum vikum og mánuðum byggt upp umtalsverða stöðu í Kviku banka, samkvæmt heimildum Markaðarins. Stoðir eru stærsti hluthafi TM með um 11,7 prósenta eignarhlut en stjórnir tryggingafélagsins, Kviku og Lykils fjármögnunar samþykktu um miðja síðustu viku að sameina félögin.

Ekki fást staðfestar upplýsingar um hversu stóran hlut Stoðir eru komnir með í Kviku, sem er ekki í eigin nafni heldur í gegnum framvirka samninga, en hann nemur að minnsta kosti nokkrum prósentum. Samkvæmt heimildum Markaðarins standa áform Stoða, sem eru eitt umsvifamesta fjárfestingafélag landsins með um 27 milljarða króna í eigið fé, til þess að vera stærsti hluthafinn í sameinuðu félagi. Eigi það að ganga eftir þegar TM og Kvika verða formlega sameinuð, sem er áætlað að geti orðið í mars á næsta ári, munu Stoðir þurfa að vera með um sjö prósenta hlut í bankanum.

Samkvæmt samrunasamningi munu hluthafar TM fá í sinn hlut um 54,4 prósent útgefins hlutafjár í Kviku. Það þýðir að Lífeyrissjóður verslunarmanna og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), sem eru á meðal helstu eigenda í báðum félögum, verða að óbreyttu stærstu hluthafarnir í sameinuðu fyrirtæki með eignarhlut upp á annars vegar um 9 prósent og hins vegar um 8,2 prósent. LSR, sem átti undir 3 prósenta hlut í Kviku í ársbyrjun, hefur bætt við sig yfir tveggja prósenta hlut í bankanum frá því í september og fer í dag með rúmlega átta prósenta hlut.

Viðskiptabankarnir þrír – Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn – eru dag skráðir fyrir samanlagt um 12 prósenta hlut í Kviku. Þau bréf skiptast á veltubók og framvirka samninga sem bankarnir hafa gert við viðskiptavini sína.

Langsamlega stærsti hluthafi Stoða er félagið S121, með um 65 prósenta hlut, en það er meðal annars í eigu Jóns Sigurðssonar, stjórnarformanns Stoða, Einars Arnar Ólafssonar, fyrrverandi forstjóra Skeljungs og stjórnarmanns í TM, og Örvars Kjærnested, fjárfestis og stjórnarformanns TM. Auk þess að vera stór fjárfestir í TM eru Stoðir með tæplega fimm prósenta hlut í Arion banka og stærsti hluthafinn í Símanum með nærri 15 prósenta hlut.

Jón Sigurðsson, stjórnarformaður Stoða.

Óformlegar viðræður um samruna TM og Kviku áttu sér nokkurn aðdraganda en Markaðurinn greindi fyrst frá því í júlí að stjórn Kviku banka hefði í lok júnímánaðar hafnað beiðni stjórnar TM um að hefja formlegar sameiningarviðræður þar sem ekki náðist saman um helstu skilmála, meðal annars um skiptihlutföll. Þremur mánuðum síðar hófust síðan formlegar viðræður og í liðinni viku var tilkynnt að stjórnir félaganna hefðu samþykkt sameiningu. Hlutabréfaverð TM og Kviku hefur hækkað verulega á undanförnum mánuðum og nemur sameiginlegt markaðsvirði þeirra nú um 67 milljörðum.

Samrunasamningurinn gerir ráð fyrir að TM færi vátryggingastarfsemi yfir í félagið TM tryggingar og í kjölfarið fari fram þríhliða samruni Kviku, TM og Lykils. TM tryggingar verða eftir það dótturfélag sameinaðs fyrirtækis. Stjórnir TM og Kviku telja raunhæft að með samrunanum megi ná fram 1.200 til 1.500 milljóna króna árlegri kostnaðarsamlegð, einkum vegna lægri fjármögnunarkostnaðar, án viðskipta- og einskiptiskostnaðar. Það er talsvert meiri samlegð en fyrst var áætlað en þegar viðræðurnar hófust var hún talin vera um milljarður.

Marinó Örn Tryggvason verður forstjóri Kviku en Sigurður Viðarsson stýrir TM tryggingum. Innan stjórnar TM töluðu sumir fyrir því, samkvæmt heimildum Markaðarins, að Sigurður færi fyrir sameinuðu félagi, á meðan Marinó yrði aðstoðarforstjóri Kviku, en ekki náðist samstaða um slíkar breytingar og var því ákveðið að forstjórar félaganna myndu áfram gegna sömu stöðum sínum.