Fjárfestingafélagið Stoðir bætti við eignarhlut sinn í Símanum sem nemur rúmlega einu prósentustigi í síðasta mánuði og er í dag stærsti hluthafi fjarskiptarisans með 14,05 prósenta hlut.

Þetta má lesa út úr nýjum lista yfir tuttugu stærstu hluthafa Símans en Stoðir keyptu í októbermánuði samtals 100 milljónir hluta að nafnverði í félaginu, eða sem nemur fyrir um 480 milljónir króna miðað við núverandi gengi bréfa Símans. Markaðsvirði eignarhlutar Stoða er í dag metinn á tæplega 6,3 milljarða króna.

Stoðir hafa aukið hratt við hlut sinn í Símanum að undanförnu en í lok júlí átti fjárfestingarfélagið tæplega tíu prósenta hlut. Stoðir hófu að fjárfesta í Símanum í apríl síðastliðnum þegar félagið eignaðist rúmlega átta prósenta hlut í fyrirtækinu.

Í síðasta mánuði fóru Stoðir fram á að boðað yrði til hluthafafundar hjá Símanum þar sem efnt yrði til stjórnarkjörs. Telja Stoðir að vegna verulegra breytinga sem orðið hafa á eignarhaldi Símans undanfarið að rétt sé að umboð stjórnar verði endurnýjað og kosin verði ný stjórn. Hluthafafundurinn fer fram fimmtudaginn 21. nóvember næstkomandi.

Á sama tíma og Stoðir hafa aukið við eignarhlut sinn á síðustu mánuðum þá hafa erlendir sjóðir í hluthafahópnum, sjóðastýringarfélögin Eaton Vance og Miton Group, minnkað verulega við hlut sinn í Símanum.

Auk eignarhlutar í Símanum er fjárfestingafélagið Stoðir stærsti hluthafi tryggingafélagsins TM og á meðal umsvifamestu eigenda Arion banka með tæplega fimm prósenta hlut.

Gengi bréfa í Símanum hefur lækkað um liðlega eitt prósent í tæplega 270 milljóna króna veltu í Kauphöllinni það sem af er degi. Frá áramótum hefur hlutabréfaverð félagsins hækkað um fjórðung og nemur markaðsvirði Símans um 45 milljörðum króna.