Kvöldfréttir Stöðvar 2 verða ekki lengur í opinni dagskrá frá og með 18. janúar næstkomandi en þá verður Stöð 2 hrein áskriftarstöð. Fréttir og tengt efni verður aðeins aðgengilegt áskrifendum að því er fram kemur í tilkynningu frá fjölmiðlafyrirtækinu Sýn.

Kvöldfréttir Stöðvar 2 hafa verið hluti af daglegu lífi þjóðarinnar í 34 ár. „Ekki flókið mál að stilla inn á Stöð 2“ stendur í frétt DV frá árinu 1986 þegar fyrsti samkeppnisaðili RÚV var stofnað hér á landi. Ef marka má tilkynningu frá forsvarsmönnum fjölmiðlaveitunnar á ekki heldur að vera flókið að stilla sig inn á Stöð 2 þrátt fyrir breytingarnar þó kostnaðurinn sé hærri en hann var þá.

Frétt DV um stofnun Stöð 2 árið 1986.
Mynd: Timarit.is

Fréttir verða áfram öllum aðgengilegar í beinni útsendingu á Bylgjunni og birtast í formi myndbrota á Vísi eftir að útsendingu lýkur á Stöð 2. Hægt verður að tryggja sér áskrift frá og með morgundeginum, þriðjudeginum 12. janúar.

Áskrift að Stöð 2 fylgir framvegis aðgangur að Stöð 2+ (áður Maraþon) á 7.990 krónur á mánuði. Engin binding er á áskriftum umfram líðandi mánuð og verður hægt að segja upp eða gera breytingar á áskriftum fyrir 25. hvers mánaðar.

Auglýsing á eins árs afmæli Stöðvar 2.
Mynd: Timarit.is

Þórhallur Gunnarsson, framkvæmdastjóri fjölmiðla Stöðvar 2, segir að með þessum aðgerðum sé verið að tryggja fréttastofuna enn frekar í sessi.

„Við erum þess fullviss að með stuðningi áskrifenda skapist forsendur til að standa vörð um öfluga fréttaþjónustu og framleiðslu innlends efnis. Á síðasta ári framleiddi Stöð 2 alls 48 íslenskar þáttaraðir og viðburði sem er gríðarleg aukning frá fyrri árum. Við höldum ótrauð áfram á sömu braut og kynnum á sama tíma fleiri viðskiptavinum fyrir Stöð2+ stærstu efnisveitu landsins með íslenskt efni, á áður óþekktu verði,” segir Þórhallur.

Þórir Guðmundsson, ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar segir breytingarnar gera þeim kleift að standa vörð um öfluga fréttaþjónustu í sjónvarpi. Breyttar aðstæður í fjölmiðlaumhverfi kalli á nýjar áherslur í fjölmiðlum.

„En það sem breytist ekki er áhersla okkar á traust, vandvirkni og nálægð við fólk. Fréttastofan verður því áfram leiðandi í miðlun frétta – á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni,“ segir Þórir.